135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:45]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef hæstv. iðnaðarráðherra hefur heyrt mig væna sig um að hafa eitthvað ... (Gripið fram í.) nei, það er ágætt. Ég sakaði hæstv. iðnaðarráðherra ekki um að ætla sér að fara á svig við stjórnarskrána, alls ekki. Ég meira að segja hrósaði hæstv. ráðherra fyrir að hafa leitað sér lögfræðiaðstoðar vegna þeirra álitamála sem upp koma í tengslum við þetta mál. En ég ítrekaði að ég teldi að það væri skylda þingsins og skylda nefndarinnar að leita frekari álita vegna þess að við erum að fjalla hér um mjög mikilvæg hagsmunamál.

Ráðherrann tók undir þetta. Hann tók undir það í framsöguræðu sinni að hann hefði engar athugasemdir við það að nefndin mundi fjalla um þessi álitaefni. Í fyrsta lagi hvort hægt væri að binda hendur sveitarfélaga með þeim hætti sem gert er í frumvarpinu með hliðsjón af 78. gr. stjórnarskrárinnar og síðan hvað varðaði hugsanlegan bótarétt sem frumvarpið kann að baka. Ég get því ekki (Forseti hringir.) séð að neinn ágreiningur sé (Forseti hringir.) milli mín og hæstv. ráðherra hvað þetta varðar.