135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:54]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði í upphafi ræðu minnar að ég væri þeirrar skoðunar að vilji menn á annað borð setja meginreglur um eignarhald og nýtingu auðlinda eigi að gera það í stjórnarskrá en ekki í almennum lögum. Þegar löggjafinn hugsar sér að setja slíkar reglur hefði ég talið að ástæða væri til að taka almenna umræðu um það hvort haga ætti stjórnarskrárákvæðinu með þeim hætti eða ekki.

Ég hef margoft sagt það úr þessum ræðustól og opinberlega að ég tel afskaplega óskynsamlegt að festa í stjórnarskrá ákvæði sem kveða á um þjóðareign á auðlindum, og hef fært rök fyrir því bæði hér og annars staðar. Það kann að vera að hv. þingmaður sé mér ósammála um það. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að hv. þingmaður (Forseti hringir.) sé mér ósammála um það og væri áhugavert að fá að heyra viðhorf hans.