135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:56]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að koma með tvær spurningar til hv. þingmanns í tilefni af ræðu hans. Sú fyrri varðar þá hagsmuni sem hv. þingmaður segir að séu í húfi ef bann við framsali á vatns- og jarðhitaréttindum nær fram að ganga. Hverjir eru þeir miklu hagsmunir sem eru í húfi að mati hv. þingmanns við það að slíkt bann gangi í gildi? Það bann sem Eiríkur Tómasson lögfræðiprófessor telur réttlætanlegt, t.d. vegna þess að um takmarkaðar auðlindir sé að ræða sem allir þurfi að hafa aðgang að í nútímaþjóðfélagi enda sé þetta hluti af frumþörfum borgaranna.

Hverjir eru þessi miklu hagsmunir? Er það kannski þessi forsenda sem Samtök iðnaðarins segja að sé fyrir vexti í orkugeiranum, þ.e. að tími einkaaðilanna sé kominn? Spilar það einhverja rullu í huga hv. þingmanns?