135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:58]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér skilst að Friðrik Már Baldursson bendi líka á leiðir gegn því sem hv. þingmaður fjallar um þannig að ég held að við getum þá skoðað þetta ofan í kjölinn í nefndinni. Það er sem sagt vantraust á hinni opinberu forsjá sem mér finnst skína út úr orðum hv. þingmanns. Hann treystir þá betur einhverjum öðrum aðilum til að hafa forsjá varðandi nýtingu auðlindanna og þá eru það auðvitað einkaaðilarnir sem landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins gengur út á.

Hin spurning mín til hv. þingmanns var þessi: Varðandi þessa hættu sem ég tel á því að girðingarnar séu færðar til og ákveðin hætta sé á því að nú fari 1/3 hluti þessara sameiginlegu fyrirtækja okkar út á markað. Hvað segir hv. þingmaður um það? Telur hann frumvarpið opna á það og auka möguleika á því að 1/3 þessara fyrirtækja verði einkavæddur?