135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[17:16]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna því frumvarpi sem hér er komið fram og lýsi yfir stuðningi við meginefni þess. Ég minni á að í sumar sem leið sendi þingflokkur Frjálslynda flokksins frá sér ályktun um þennan málaflokk. Hann lagðist gegn áformum sem þá voru uppi um einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja og skoraði á ríkisstjórnina að hætta við sölu á hlut ríkisins og að sveitarfélögin ættu sinn hlut áfram. Í ályktuninni eru dregin fram meginatriði í stefnu þingflokks Frjálslynda flokksins til málsins sem frumvarpið tekur á og ég vildi í örstuttu máli, virðulegi forseti, rifja það upp þannig að fyrir liggi sú pólitíska meginlína sem þingflokkurinn hefur markað.

Áður en til einkavæðingar getur komið í orkugeiranum þarf í fyrsta lagi að liggja fyrir að hagsmunir neytenda séu tryggðir með því að komið hafi verið á raunverulegri samkeppni milli margra aðila í framleiðslu og sölu. Í öðru lagi þarf að tryggja með löggjöf hagsmuni þjóðarinnar með því að tryggja að til hennar renni arður af nýtingu orkunnar í formi afgjalds eða leigu. Í þriðja lagi þarf að tryggja sanngjarnan hlut íbúa einstakra landsvæða og héraða í afgjaldi af þeirri orku sem þar er að finna og hlut þeirra í þeirri atvinnuuppbyggingu sem af orkunýtingunni leiðir. Þessi þrjú atriði leggjum við til grundvallar stefnumörkun í þessum málaflokki, sem felur í sér að við skilgreinum þessar auðlindir sem þjóðareign. Afraksturinn renni til þjóðarinnar og til þeirra íbúa eða héraða þar sem viðkomandi auðlind er, þ.e. tvíþætt markmið. Í þriðja lagi leggjum við hins vegar áherslu á að sjálf nýtingin á auðlindinni, atvinnustarfsemi sem þarf til að búa til verðmæti úr auðlindinni, sé fyrst og fremst á hendi einkaaðila. Við teljum að það sé ekki endilega verkefni opinberra aðila að reisa virkjun og reka eða reisa atvinnufyrirtæki sem nota raforku og eiga þá starfsemi og reka.

Virðulegi forseti. Til þessa hefur ríkið unnið að slíkum framkvæmdum vegna þess hve virkjunarframkvæmdir eru dýrar og að í íslensku þjóðfélagi hafa ekki verið þeir aðilar sem hafa ráðið við að reisa og eiga slík mannvirki. Nú eru breyttir tímar í þessum efnum. Að okkar mati er ekkert sem mælir gegn því, að því tryggðu að réttindin séu klár og skýr þjóðareign og samningur um nýtingu þeirra liggi fyrir, að einkaaðilar hasli sér frekar völl á þessu sviði en orðið er. Ég sé ekkert sem mælir gegn því ef einkaaðilar vilja reisa tiltekna virkjun og hafa sjálfir annast samninga og fundið kaupendur að þeirri raforku og ef þeir ná samningum við eiganda réttindanna, þ.e. ríkisvaldið, um afgjald og nýtingu. Það er ekkert athugavert við það eða neitt sem mælir því í gegn að einkaaðilarnir séu í þeirri atvinnustarfsemi.

Ég minni á sjávarútveginn í þessu sambandi, virðulegi forseti, þar sem sú meginlína hefur orðið ofan á, þótt það sé ekki í stjórnarskrá þá er það í lögum, að nytjastofnar við Ísland eru skilgreindir sem sameign þjóðarinnar. Af því leiðir hins vegar ekki að nýtingin sjálf sé ríkisfyrirtækja. Sjávarútvegsfyrirtækin eru auðvitað einkaaðilar og það er eðlilegt.

Ég vildi draga þetta fram, virðulegi forseti, þannig að það lægi ljóst fyrir að þau sjónarmið sem þingflokkurinn hefur sett fram í þessum efnum falla algerlega saman við meginsjónarmiðin í frumvarpinu sem hæstv. iðnaðarráðherra gerði grein fyrir í upphafi umræðunnar.

Ég er þó ekki alveg tilbúinn til að samþykkja, með hæstv. iðnaðarráðherra, að gefast upp við að snúa til baka óheillaþróuninni sem leiddi til þess að þriðjungurinn af eignarhlut Orkuveitu Suðurnesja er kominn úr opinberri eigu. Ég held að frumvarpið eigi að vera altækt í þeim efnum og eigi að ná til allra þessara fyrirtækja, líka þeirra sem ríkið eða sveitarfélögin eiga ekki að fullu.

Það kann að vera að huga þurfi að réttindum þeirra sem eiga hlut í Hitaveitu Suðurnesja í dag og eru ekki opinberir aðilar. Löggjöf sem mundi mæta þeim sjónarmiðum sem ég set fram yrði að vera sanngjörn gagnvart þeim eigendum. Ég teldi t.d. vel hægt að setja ákvæði í löggjöfina um að þessi eignarhlutur verði leystur til ríkisins og setja upp gerðardóm til að ákvarða verð. Þar er algeng aðferð sem ríkið hefur beitt og er vel hægt að nota í þessu tilviki. Ég hef enga trú á að sú málsmeðferð muni á nokkurn hátt stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar og eignarréttarákvæði hennar. Þó kann að vera nauðsynlegt að gera þetta, að mínu viti, til þess að ekki komi gat í löggjöfina sem óhjákvæmilega myndast við þá stöðu sem er í dag á eignarhaldi í Hitaveitu Suðurnesja.

Í öðru lagi mundi ég velta fyrir mér og vilja að skoðað yrði vandlega í þinglegri meðferð málsins hvort nægjanleg trygging sé að þessi fyrirtæki verði alltaf a.m.k. að tveimur þriðju hlutum í eigu ríkis og sveitarfélaga. Það kann að vera rétt sem hér var bent á fyrr í umræðunni, að það að opna fyrir að þriðjungs hlutdeild gangi út úr opinberri eigu setji af stað þróun sem ekki er ætlast er til að verði. Til að koma í veg fyrir það tel ég nauðsynlegt að skilja á milli eignaraðildar að fyrirtækinu og réttinda sem fyrirtækið á þannig að alltaf sé tryggt að ekki verði hægt að selja þessi réttindi frá fyrirtækinu eða fénýta í gegnum þriðjungs utanaðkomandi eignaraðildar.

Ég vil fagna ákvæði í 1. gr. frumvarpsins og samhljóða ákvæði í 8. gr. sem segir að við ákvörðun um hverjum skuli veittur afnotaréttur skuli gæta jafnræðis. Þetta er ákvæði sem ég tel tryggja að við lendum ekki í sömu stöðu þegar réttindum til nýtingar verður úthlutað, sem ég hygg að muni fyrst og fremst verða á höndum einkaaðila, líkt og gerðist í sjávarútveginum, að menn lendi í þeim ógöngum sem þeir eru komnir út í með tilheyrandi niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Hún fann að þessu atriði málsins, að kerfi sem er notað til að úthluta réttindum brjóti gegn jafnræðisreglunni. Ég tel að þetta lagaákvæði tryggi að þær reglur sem verða síðan settar um ráðstöfun réttindanna leiði ekki til þeirrar ógæfulegu stöðu sem við erum komin í varðandi sjávarútveginn. Þess vegna fagna ég þessu ákvæði frumvarpsins, virðulegi forseti.

Ég tek undir athugasemdir formanns Framsóknarflokksins um hve lengi tímabundinn afnotaréttur getur varað, þ.e. allt að 65 ár. Mér finnst það býsna langur tími. Ég held að það þurfi að líta á það mál þótt auðvitað þurfi þeir sem reisa virkjanir og þurfa að kaupa réttindi eða leigja til þess að nýta vatn að hafa nokkuð rúman tíma til að standa undir fjárfestingunni og greiða niður. En 65 ár eru mjög langur tími, einnig í samhengi sem hingað til hefur verið stuðst við í tengslum við afskriftartíma virkjana. Sá tími hefur verið 30 ár og 40 ár og þetta er í a.m.k. lengri kantinum hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að bæta miklu við það sem fram er komið til að lýsa viðhorfum mínum og þingflokks Frjálslynda flokksins til þessa máls. Ég vil þó segja að lokum að eftir að hafa lesið þetta frumvarp og greinargerðina og skoðað málið frá öllum hliðum fæ ég ekki séð og get ekki tekið undir það sem fram kom í máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, að þetta mál kunni að brjóta í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar hvað varðar sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og eignarréttindi annarra aðila, takmörkun á þeim. Þvert á mót tel ég, hvað varðar sveitarfélögin, að stjórnarskrárákvæðið sem hann vísaði til segi einungis að þeim málum skuli skipa með lögum. Þess vegna getur löggjafinn sett lagaákvæði um málefni sem varða sveitarfélögin og hv. þingmenn geta farið í gegnum þau lög, sem eru margvísleg og á mörgum sviðum. Þau geta mælt mjög ítarlega fyrir um skyldur sveitarfélaga til að inna af hendi þjónustu og kvaðir um hvernig málum skuli háttað. Hægt er að veita heimildir til einstakra ráðherra um að setja nákvæm fyrirmæli um útfærslu á þeim kvöðum sem lagðar eru á sveitarfélögin. Fyrst menn telja að löggjöf eins og t.d. grunnskólalögin standist ákvæði stjórnarskrárinnar hvað varðar sveitarfélög þá er víðs fjarri að rökstuðning megi finna fyrir því að þetta frumvarp gangi eins langt. Það mælir síður fyrir um verkefni sveitarfélaga en grunnskólalögin gera. Ég er algerlega ósammála þeim sjónarmiðum og kannast ekki við neina dóma í þá átt að ætla megi að lagaákvæði um takmörkun á framsali eignarréttindanna sem í dag eru í höndum opinberra aðila séu líkleg til að stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar. Þvert á móti eru hygg ég býsna margir sem færa rök á hinn veginn fyrir því að þessi málsmeðferð verði dæmd góð og gild, ef til þess kæmi að leita yrði til dómstóla með þennan lagatexta.

Virðulegi forseti. Ég læt stuttri ræðu minni um þetta mál lokið en ítreka almennan stuðning þingflokksins við meginmarkmið málsins.