135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[17:53]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti, Það er alveg rétt að það dæmi sem ég tók er ekkert endilega mjög praktískt akkúrat á þessari stundu. Ég nefndi reyndar dreifingu líka þótt ákvæði sé ekki um þetta í raforkulögunum hvað varðar dreifinguna en það er alveg hægt að hugsa sér að sú staða kæmi upp að við vildum halda þessu opnu. Ég held nefnilega að það sé ástæða til að vekja athygli á þessu ákvæði raforkulaganna vegna þess að við erum að setja hér reglur um eignarhald á þessu flutningsfyrirtæki og dreifiveitunum. Við erum búin að ákveða að það eigi að meginstefnu til að vera í eigu opinberra aðila. Vitað er að það eru arðsemiskröfur á flutningsfyrirtækinu og það eru líka arðsemissjónarmið hvað varðar dreifinguna.

Þess vegna segi ég að þegar við horfum á verkefni sem hugsanlega gætu komið upp, ég get nefnt t.d. netþjónabú þar sem gera þarf einhverjar styrkingar og breytingar, og vegna þess að hæstv. iðnaðarráðherra nefndi sérstaklega að það sé ekki hugmyndin í þessum lögum að almenningur borgi fyrir línur og það er alveg hárrétt, þá getur vel verið að það sé ekki verra þegar menn koma inn í landið og velta þessu fyrir sér bæði vegna þess hvað hlutirnir taka langan tíma o.s.frv. að horfa á þessi mál í heilu lagi og vera ekki með einhverjar reglur sem þvælast fyrir í því. Að horfa bara á þetta frá upphafi til enda vegna þess að þarna á milli, í dreifingunni og flutningnum, koma allt reglur en eru hinum megin, sitt hvorum megin við. Auðvitað er það vegna þess að um er að ræða samkeppnisrétt öðrum megin og opinbera aðila og einkaleyfi hinum megin. En það er alveg hægt að hugsa sér tilvik þar sem þetta er bara gríðarlega praktískt atriði. Þess vegna segi ég, bara til að horfa lengra fram í tímann, að það sé alveg ástæða til þess í þeirri löggjöf sem við erum að fara að setja núna, (Forseti hringir.) í því frumvarpi sem við erum með í smíðum, að horfa á þær aðstæður sem gætu hugsanlega komið upp.