135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[18:00]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að við getum öll verið sammála um að hér er stórt mál á ferðinni. Eða angi af stóru máli. Þau eru kannski ekki mörg sem koma fyrir Alþingi þessi árin sem snerta stærra svið, þ.e. hvernig farið er með þessar mikilvægu auðlindir, eignarhald á þeim og lagaumgjörð um nýtingu þeirra.

Varðandi þetta frumvarp má segja að tilgangurinn sé góður og göfugur, að reyna að tryggja, eins og ég skil það og vil skilja frumvarpið, sameign þjóðarinnar á þessum auðlindum eftir því sem það er talið lagalega tækt, að tryggja forræði opinberra aðila og setja mörk á þá starfsemi sem er bundin sérleyfum eða einkaleyfum. Frumvarpið er tilraun í þeim efnum og hefur þann yfirlýsta tilgang og nær honum í þeim skilningi að settar eru upp vissar girðingar gagnvart t.d. innrás eða innkomu einkaaðila. En línan er dregin á ákveðnum stað. Vandi málsins er í mínum huga fólginn í því að þetta er málamiðlun. Um leið og menn segja: Það er mikilvægt að tryggja að opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, eigi a.m.k. tvo þriðju í flutningsfyrirtækinu og dreifiveitum þá reisa menn girðinguna þar og þá er opið fyrir einkaaðila inn að henni, eignarhald upp að einum þriðja.

Það er einnig mikilvægt að menn átti sig á því að í reynd gæti að mestu leyti orðið um einkavæðingu að ræða á framleiðslufyrirtækjunum að öllu leyti nema því að það yrði að skilja eftir einhvers konar eignarhaldsfélag um virkjunarréttinn eða „auðlindina“ sem á 65 ára fresti hefði forræði á að ráðstafa henni, þ.e. að því tilskildu að nýtingarrétturinn væri leigður einkaaðilum. Á mannamáli þýðir þetta að Landsvirkjun, Rarik, Orkubú Vestfjarða, Hitaveita Suðurnesja, öll þau virkjunarréttindi og allur sá rekstur sem þar er í dag, gæti farið yfir í hendur einkaaðila ef menn stofnuðu eignarhaldsfélög um virkjunarréttindin og leigðu til 65 ára. Það er mjög mikilvægt að menn hafi þetta bara á hreinu. Meira er það ekki sem þessi lög tryggja í reynd. Þegar kemur að hinum endanum, flutningunum og dreifingunni sem lúta lögmálum náttúrulegrar einokunar, eins og hæstv. ráðherra réttilega nefndi hér áðan, er eignarhaldið varið að tveimur þriðju en einkaaðilar gætu sömuleiðis komið þar inn upp að þriðjungi.

Mál getur í sjálfu sér snúist upp í andhverfu sína. Ætli það væri ekki þannig að í dag mundu menn hika við að hefja einkavæðingu þessara mikilvægu opinberu fyrirtækja óskiptra og í einu lagi. Þar með koma einkaaðilarnir að auðlindinni eins og mistökin með Hitaveitu Suðurnesja hafa dregið svo hressilega fram í dagsljósið. En hvernig verður umræðan ef þessi aðskilnaður verður knúinn fram og þessi lög sett? Munu þá ekki einhverjir segja þetta allt í lagi? Það er búið að bjarga auðlindinni, 65 ára reglan, eignarréttarreglan um tvo þriðju, nú geta einkaaðilarnir komið og tekið til hendinni, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði í og með áðan.

Við nálgumst málin frá báðum hliðum og skoðum allar mögulegar útkomur í því. Þess vegna er mjög mikilvægt að stjórnvöld gefi skýr svör um hvers er að vænta í þessum efnum af þeirra hálfu. Ég spyr mig t.d. að því: Hvers vegna í ósköpunum er fyrirtækið Landsnet haft þarna inni? Hvers vegna í ósköpunum er opnaður sá möguleiki að einkaaðili komi þar inn að 1/3? Ég skil 4. gr. þannig, þar sem talað er um flutningsfyrirtækið með ákveðnum greini í eintölu. Það getur ekki annað verið en Landsnet. Það er það sem það heitir í dag. Við höfum átt um það orðastað áður, ég og hæstv. iðnaðarráðherra. Af hverju er það ekki tekið út úr þessu samhengi og því bara slegið föstu í eitt skipti fyrir öll að það verði sjálfstætt opinbert fyrirtæki í eigu ríkisins og við því verði ekki hróflað? Að mínu mati á það ekki að fara inn í þetta samhengi því að það er í algerlega sérstakri stöðu. Þetta er vegakerfi raforkunnar um landið, þetta er næsti bær við það að fara að tala um að einkavæða Vegagerðina, opna á að einkavæða hana að þriðjungi.

Ég spyr mig líka að því: Hvers konar vandræði mun það skapa ef einkaaðilar koma inn í þennan einkaleyfisbundna einokunarrekstur að einum þriðja? Það mun ekkert skapa nema vandræði. Sambúð þeirra við hið opinbera eignarhald, þó í þessum hlutföllum sé, mun ekki leiða til neinnar gæfu. Það eru að mínu mati mistök að opna fyrir þetta. Þarna ætti eignarhaldið einfaldlega að vera 100%.

Þótt það standi ekki fyrir dyrum á næstunni og ríkisstjórnin hafi það ekki endilega á stefnuskrá núna, hvað sem líður landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins, að fara að hefja einkavæðingu Landsvirkjunar — fyrri ríkisstjórn hafði það beinlínis á prjónunum eins og við munum og af og til var nú vitnað hér í ummæli fyrrv. hæstv. iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur í þeim efnum að ríkisstjórnin sæi ekki fyrir sér að hið opinbera ætti Landsvirkjun eitt um alla framtíð, gott ef það var ekki bara tímasett að reiknað yrði með að einkavæðingin hæfist á árinu 2007 eða 2008.

Í ákvæði til bráðabirgða II er afar athyglisverð klausa. En þar er sagt:

„Iðnaðarráðherra skal beita sér fyrir endurskoðun á sérlögum um orkufyrirtæki, þar sem m.a. verði tekið til skoðunar hvort hægt sé að fella þau brott að hluta eða öllu leyti. Við þá vinnu skal m.a. haft samráð við fjármálaráðherra og eigendur …“

Í sérlögunum stendur í dag að Landsvirkjun sé í eigu ríkisins og að Rarik sé í eigu ríkisins. Það þarf að fara fyrir Alþingi ef því á að breyta. Yrðu þessi lög öll felld niður og hlutafélagalög eða lög um opinber hlutafélög giltu væri staðan breytt. Þess vegna spyr maður sig: Er eitthvað á bak við þessi áform um endurskoðunina? Getur hæstv. iðnaðarráðherra fullvissað okkur um að engin slík einkavæðingaráform séu á prjónunum? Það væri tímaskekkja í dag og gengi algerlega á skjön við þróun almennra viðhorfa í samfélaginu. Þökk sé m.a. REI-klúðrinu og þeirri uppreisn, undir forustu Svandísar Svavarsdóttur, sem gerð var gegn því sem þar átti að gerast hefur orðið grundvallarbreyting hvað það snertir að nú hafa menn almennt ímugust og skömm á því að vera að hleypa þröngum sérhagsmuna- og einkagróðasjónarmiðum inn í þennan viðkvæma málaflokk. Menn vilja ekki samkrull milli hins opinbera eignarhalds og einkaaðila. Ég fullyrði að ef gerð yrði skoðanakönnun í dag mundi hún sýna að sennilega 4/5 hlutar þjóðarinnar a.m.k. væru þeirrar skoðunar að þessu væri langbest borgið í höndum opinberra aðila, enda er það auðvitað þannig. Þá á að hafa löggjöfina í samræmi við það og ekki elta ólar við ýtrustu og þrengstu sjónarmið frjálshyggjupostula sem koma hér upp á köflum. En ég fagna því þó að það má jafnvel ætla að það sé minnihlutasjónarmið í Sjálfstæðisflokknum, að þeir séu frekar fáliðaðir hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson, Pétur Blöndal og fylgismenn. Mér fannst miklu víðsýnni viðhorf koma fram, t.d. í máli hv. 9. þm. Norðausturkjördæmis, Ólafar Nordal, í þessum efnum.

Ég tel ákaflega mikilvægt að hafa það líka í huga að um er að ræða afar helgar og mikilvægar sameignir þjóðarinnar, þ.e. þessar auðlindir. Þær eru það huglægt og eins í hinu stóra samhengi, jafnvel þótt einkaeignarréttur sé til staðar eða afnotaréttur í tilteknum skilningi og okkar réttur hafi þannig þróast gegnum aldirnar. Ég minni á, og þarf væntanlega ekki að brýna hæstv. iðnaðarráðherra í því, að vatn er ekki einkaeign. Menn hafa afnotarétt af vatni samkvæmt gildandi lögum. Vatn er ekki bara sameiginleg auðlind okkar Íslendinga, það sem hér fellur til, heldur sammannleg auðlind. Sameinuðu þjóðirnar vilja skilgreina vatn þannig, rétt eins og að andrúmsloftið okkar og lofthjúpurinn yfir Íslandi er ekki bara eign okkar sameiginlega, hann er hluti af sammannlegri auðlind. Vatn og andrúmsloft eru óumflýjanleg nauðsyn og undirstaða alls lífs á jörðinni, allrar þróunar lífríkisins. Maðurinn sem tegund hefur engan rétt til að setja sig einan í herrasæti í þeim efnum. Þar erum við hluti af lífríkinu og þróuninni og eigum að muna eftir því.

Við vorum þvinguð undir samkeppnisreglur Evrópusambandsins með innleiðingu orkutilskipana og þá urðu grundvallarbreytingar á því hvernig við nálguðumst þessi mál og hvaða augum við litum þau. Fram að því var augljóst samkvæmt íslenskum rétti að þetta var skilgreint sem almannaþjónusta. Rafmagn var ekki venjuleg vara og heitt vatn var ekki venjuleg vara í íslenskum rétti fyrr en þessi nýju viðhorf fóru að ryðja sér til rúms. Það sást m.a. af því að á fyrirtækin sem fengu rétt til nýtingar voru lagðar ríkar almannaskyldur. Landsvirkjun hafði einkarétt til að reisa stórar virkjanir en hún hafði líka skyldur sem hún átti að leggja á móti þeim réttindum sem hún fékk í þágu allrar þjóðarinnar. Hver var skyldan? Að sjá um og tryggja að í boði væri næg orka í þágu almannahagsmuna, almennings, iðnaðar og atvinnulífs.

Menn hugsuðu þetta þannig að arðurinn kæmi af starfseminni og nýtingunni en að eigandinn, ríkið og þjóðin, þyrfti ekki að sjúga hann út úr rekstrinum sem slíkum heldur væri miklu mikilvægara að tryggja að þessi gæði væru í boði og stæðu öllum til boða. Þessi nálgun hefði betur fengið að haldast vegna þess að við okkar aðstæður er það auðvitað eins og hver annar fáránleiki að troða samkeppnisreglum upp á þetta svið, reglum sem sniðnar eru að samkeppnismörkuðum í viðskiptum með almennar vörur eða þjónustu þar sem slík lögmál geta talist gilda. Hér eiga þau ekki við. Þetta er starfsemi sem lýtur náttúrulegri einokun að langstærstum hluta og mikil vandkvæði eru fólgin í að reyna að innleiða samkeppnishugsunina meira að segja í framleiðsluþáttinn, þótt flutningur og dreifing lúti öðrum reglum. Hvers vegna? Jú, vegna þess að fyrirtækin eru í þannig aðstöðu að viðamikið regluverk, reglusetningu og eftirlit þarf til þess að hlutirnir fari ekki úr böndunum, að menn okri ekki í krafti sinnar náttúrulegu einokunar. Þá eru sett tekjumörk og sett upp eftirlitskerfi og allt þetta brölt sem menn baksa við hér og þar, sem hefur gengið svona og svona.

Ég sakna þess að hér skuli ekki samhliða til umfjöllunar a.m.k. tvennt í viðbót. Það eru ákvæði í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins um hina almennu sameign og mögulega sérlög sem útfæra grundvallarhugsunina um þjóðareignina, um hina félagslegu sameign slíkra efnislegra auðlinda og náttúrugæða, sem draga mörkin gagnvart afnotarétti einkaaðila. Þannig held ég að við ættum að ganga frá þessu. Við ættum að hafa þrenns konar fyrirkomulag eða ákvörðunarheimildir, þ.e. stjórnarskrána og möguleg sérlög, þá meina ég almenn sérlög, almenns eðlis um þjóðareign almennt þar sem sameignirnar væru skilgreindar. Síðan væru það lög af þessu tagi sem beindust að nýtingarþættinum.

Ég minni á einn þátt enn í þessum efnum sem við skulum ekki gleyma. Það eru umhverfisáhrifin, umhverfismálin og umhverfisþátturinn. Við skulum horfast í augu við að nýtingunni tengjast í mörgum tilvikum einhver allra erfiðustu og umdeildustu mál í okkar samtíma, umhverfisáhrifin, mögulegar og í sumum tilfellum sorglega miklar umhverfisfórnir samfara því að beisla orkuna og nýta hana. Ætli þjóðinni þyki það ekki máli skipta í þágu hverra nýtingin er og hver hefur af henni arð? Ætli það geti ekki skipt máli hvort menn sætta sig við þær fórnir sem þarf að færa á móti ef ljóst er að það sé í almannaþágu og þjóðin öll sem eigandi fái arðinn en ekki einkagróðaöflin? Sporin hræða í þeim efnum. Ég held að við ættum að forðast að fara lengra út í fenið en menn eru komnir nú þegar. Við ættum að reyna að gangast við mistökunum og leiðrétta hina fáheyrðu aðgerð sem farið var út í þegar hlutur í Hitaveitu Suðurnesja var seldur með þeim skilyrðum að einkaaðilar keyptu. Langeinfaldasta leiðin í þeim efnum er að ríkið bjóðist til að kaupa hlutinn til baka og leysa alla niður úr snörunni. Þá getur það ágæta fyrirtæki fallið undir þessi lög (Forseti hringir.) eins og öll önnur.

Sem sagt, herra forseti, að mörgu er að hyggja í þessu máli. Fyrir okkar hönd boða ég það (Forseti hringir.) að við áskiljum okkur allan rétt til að leggja til breytingar á málinu. Það er margt gott í því en það má gera betur og þarf að gera betur.