135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[18:20]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef sem iðnaðarráðherra aldrei skrifað undir neina gjaldskrá öðruvísi en láta skoða það rækilega hvort þau rök sem flutt eru til hækkunar standist eða ekki, oft efast um það en ég hef alltaf haft rangt fyrir mér. Staðreyndin er einfaldlega sú að samkvæmt því regluverki sem Alþingi bætti við raforkulögin 2003 eru fyrirtækin mjög hart keyrð við að byggja upp starfsemi sína, það er einfaldlega þannig. Ég reyni að gæta hags neytenda, ég tel eigi að síður að fyrirtækin séu með tekjumörkum og öðru svo hart keyrð að þau eigi fullt í fangi með að byggja upp eðlilega þjónustu. Ég á því ákaflega bágt með að sjá einhvern á markaði vilja koma inn í dreifingu eða flutningsþáttinn, það verð ég nú að segja.

Ég vísa svo til þeirra umræðna sem hér voru fyrir nokkrum árum um vatnsveitur. Niðurstaðan varð þar, ég held við harkaleg mótmæli hv. þingmanns, að sveitarfélag getur framselt fyrirtæki rekstur vatnsveitu, svo fremi sem fyrirtækið sé, eins og það er orðað í lögunum, að meiri hluta í eigu sveitarfélaga. Hér er gengið lengra, þ.e. það er ekki krafist meiri hluta heldur aukins meiri hluta. Ég held að það séu tíu ár, ég man það samt ekki alveg, síðan þetta var samþykkt hér á þingi, eitthvað svoleiðis. Ekki nokkurt einasta fyrirtæki eða einstaklingur hefur sýnt nokkurn áhuga á að eignast part í þessu. Af hverju? Vegna þess að arðurinn af þessu er svo lítill. Arðurinn, það sem þeir mega taka út úr rekstrinum til þess að byggja sig upp, dugar ekki þessum fyrirtækjum. Ég hef sagt það hér á Alþingi að ég telji að endurskoða eigi fyrr raforkulögin með tilliti til þessa heldur en fram kemur í bráðabirgðaákvæði með lögum — minnir mig að það hafi átt að klárast fyrir 2010. Ég hef sagt að ég vil gera það fyrr vegna þess að ég tel að þörf sé á því. Ég tel að við verðum að skoða það hvort sveitarfélögin sem eiga þessi fyrirtæki hafi ekki þörf fyrir að hafa meiri tekjur til þess að geta byggt kerfið betur upp. Það er allt á tapi í dag.