135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[18:51]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg verið sammála hæstv. ráðherra um að það er erfitt að sjá ýmsa hluti fyrir í nýjum atvinnugreinum og að í nýjum tækifærum koma oft upp alls konar sjónarmið sem menn gátu ekki séð fyrir. Það sem ég vildi benda á í þessu samhengi var að mér hefði þótt rétt og kannski — fyrst við gefum okkur tíma til 1. mars 2009 og svo til 1. júlí þegar lögin taka gildi, við þurfum að gefa okkur þann tíma og fyrir þann tíma eigum við væntanlega að vera búin að ráða bót á þessum álitamálum sem ekki liggja fyrir núna. Mér hefði þá ekki fundist neitt að því að við tækjum lengri tíma í lagasetninguna til þess að hægt væri að koma þessum atriðum fyrir inni í löggjöfina en ekki að setja það á eftir í reglugerð.

Þetta er sú niðurstaða sem komin er í þessu máli og ég ítreka enn að ég tel að vel fari á því að nefnd undir forsæti hæstv. forsætisráðherra fari gaumgæfilega yfir þessi mál. Ég treysti því að þar verði mjög vel vandað til verka.