135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[19:17]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að spyrja nánar út í eitt í ræðu hv. þingmanns Ögmundar Jónassonar. Það var þetta um samkeppnisrekstur og einkafjármagn. Hann tók dæmi af vatnsveitum og slíkum fyrirtækjum í útlöndum. Ég held að í því samhengi sé ágætt að minnast þess að sú einkavæðing er töluvert ólík því sem við erum að tala um hér og reyndar einnig það sem gerðist í Kaliforníu að því leyti að þetta frumvarp gerir ekki ráð fyrir því að einkaaðilar sjái um flutning raforkunnar. Það er á hinn bóginn gert ráð fyrir því að flutningurinn eigi að vera í meirihlutaeigu hins opinbera.

Raunar er það þannig samkvæmt núgildandi raforkulögum að flutningsfyrirtækinu er skylt að vera í eigu ríkisins. Það er ekki gert ráð fyrir neinu öðru þar. Eitt af hlutverkum flutningsfyrirtækisins er að tryggja að raforka sé til staðar í landinu, að gera raforkuspár og kanna hvort raforkukerfið sé rekið með öruggum og skilvirkum hætti. Það er mjög regúlerað kerfi, svo maður sletti aðeins og að því leyti ósambærilegt, að mínu áliti, við dæmin sem hv. þingmaður Ögmundur Jónasson tók.

Varðandi tilskipun Evrópusambandsins, sem sú lagasetning öll byggir á, þá ganga núgildandi raforkulög á vissan hátt skemur en nýja tilskipunin um raforkumarkaðinn frá Evrópusambandinu. Ég held að sú umræða sem er í gangi í Evrópusambandinu sé um algjöran fyrirtækjaaðskilnað á milli (Forseti hringir.) sérleyfisþáttanna og samkeppnisþáttanna.