135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[19:24]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég held að ríkið eigi að vera að vasast í þessum hlutum eins og það er orðað, einfaldlega vegna þess að reynslan sýnir að það er ágætlega til þess fallið.

Hvers vegna ekki að leyfa einkafyrirtækjum að reisa virkjun ef þau sjá sér hag í því? Þau vilja væntanlega hafa arð út úr slíkri starfsemi. Hvað er að því að við gerum það saman? Hvað er að því að ríkið, samfélagið, eða sveitarfélögin geri það og við njótum arðseminnar sjálf? Er það ekki enn betra? Hvers vegna að framselja þennan rétt, gefa þann möguleika frá okkur? Ég skil það ekki.

Þegar talað eru um að opna fyrirtækjunum leið inn í orkugeirann, opna fjármagninu leið inn í orkugeirann, ber að minnast þess að það lætur ekki staðar numið þar. Það heldur áfram og niður í vasann hjá okkur. Niður í vasa okkar hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Það er okkar hlutverk sem þingmanna, sem fulltrúa þjóðarinnar, að passa upp á þessa vasa.