135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[19:49]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil nú í lok þessarar umræðu þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls. Allar þessar umræður sem hafa nú staðið í meira en hálfan starfsdag hafa verið ákaflega málefnalegar og í takt við þá staðreynd að hér eru menn að ræða algjör grundvallaratriði.

Það hefur komið fram í þessari umræðu sem hefur glatt mig að um þetta frumvarp eða meginatriðin í því virðist ríkja nokkuð breið samstaða. Hér er um að ræða frumvarp sem hefur verið samþykkt í ríkisstjórn Íslands. Hér er um að ræða frumvarp sem hefur verið heimilað af báðum þingflokkum stjórnarliðsins að leggja fram. Það hefur líka komið fram í þessari umræðu að tveir flokkar stjórnarandstöðunnar hafa lýst yfir stuðningi við meginatriðin. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lýsti því yfir fyrir hönd Frjálslynda flokksins að sá flokkur væri í meginatriðum sammála þessu frumvarpi. Formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Guðni Ágústsson, lýsti því yfir að hér væri um heillaspor að ræða og óskaði bæði iðnaðarráðherra og ríkisstjórninni til hamingju með að hafa lagt þetta fram. Því er með engu móti hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að um meginatriðin ríki nokkuð góð samstaða á hinu háa Alþingi. Það er í samræmi við þær undirtektir sem þessi viðhorf hafa fengið í almennri umræðu í samfélaginu. Við göngum þess ekki dulin að töluverðir úfar risu hér út af orkumálunum á öllu síðasta ári. Miklar umræður urðu um þau meðal annars hér í þingsölum, í fjölmiðlum og þau viðhorf sem lýst var af minni hálfu, einnig af hálfu hæstv. forsætisráðherra, voru með þeim hætti að ég hef ekki, miðað við þær undirtektir sem þau hafa fengið í samfélaginu, orðið þess var að þar sé neins staðar um að ræða einhverja meiri háttar andstöðu gegn þeim.

Ég vil sérstaklega taka tvennt fram. Það eru tvö sveitarfélög sem hér í þessari umræðu hafa verið nefnd til sögunnar þar sem deilur hafa risið um orkumál, Reykjavík sem er mitt sveitarfélag og Reykjanesbær. Það er nauðsynlegt að það komi fram í þessari umræðu að þau viðhorf sem er að finna í þessu frumvarpi hafa með einhverjum hætti notið fulltingis allra þeirra þriggja meiri hluta eða talsmanna þeirra sem hafa nú á tiltölulega skömmu tímabili setið í Reykjavík og að minnsta kosti partar af meginatriðum í þessu frumvarpi — eins og til dæmis stefnan varðandi starfsemi sérleyfisfyrirtækja og eignarhald á þeim — meginatriðið í því hefur líka notið stuðnings, að því er ég best veit, beggja hluta bæjarstjórnarinnar í Reykjanesbæ. Ég hef skilið þannig yfirlýsingar í þessa veru.

Ég er sjálfur nýkominn af aðalfundi Samorku sem er samtök orkufyrirtækjanna í landinu þar sem ég fór og kynnti það sem hér hefur kannski mest verið til umræðu, eignarhaldsstefnu þessa frumvarps. Ég varð ekki var við að menn væru neitt sérstaklega á móti því. Auðvitað svo allt sé fram dregið, þá eru ekki allir ánægðir með það, en á þeim fundi var samþykkt ályktun þar sem var að vísu sagt að það væri fullmikil áhersla lögð á eignarhaldið. En það var ekki lagst gegn því. Þetta er mjög mikilvægt að komi hérna fram.

Í þessari umræðu hefur eðlilega og skiljanlega verið fjallað töluvert um stjórnarskrána. Ég hef mörgum sinnum í umræðum á Alþingi sem varða ýmis mál sýnt stjórnarskránni meiri nærgætni en til dæmis minn ágæti fyrrverandi félagi úr stjórnarandstöðunni hv. þm. Ögmundur Jónasson. Er ég nú að vísa til umræðna um fjölmiðlamálin á sínum tíma. Ég lýsti því þá alveg skýrt yfir að ég tel að það sé viðurhlutamikið af hálfu ríkisstjórnar að leggja fram mál sem vafi getur leikið á að sé í samræmi við stjórnarskrána. Það var þess vegna sem ráðuneytið kaus að fara þessa leið að fá til álitsgjafar þann sérfræðing sem hefur notið mests trúnaðar af hálfu ríkisstjórna sem setið hafa síðastliðinn áratug, Eirík Tómasson prófessor í stjórnskipunarrétti. Honum hefur verið sýndur sá trúnaður af hálfu fyrri ríkisstjórnar að vera skipaður formaður sérfræðinganefndar stjórnarskrárnefndar. Ég starfaði í stjórnarskrárnefndinni og sit enn í henni. Hún er enn að störfum og hann er enn þessi formaður. Álit hans var alveg skýrt varðandi álitamálin í þessu.

Í fyrsta lagi komst hann að þeirri niðurstöðu að meginstefnan í frumvarpinu fæli í sér almenna takmörkun sem væri ekki hægt að jafna við eignarnám og mundi ekki leiða til neinnar bótaskyldu. Honum var sérstaklega falið að skoða hvort það samrýmdist fyrirmælum tiltekinnar greinar stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 72. gr., að reisa þær skorður við framsali orkuréttinda sveitarfélaga, fyrirtækja eða stofnana þeirra sem gerðar eru í frumvarpinu. Hann komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki.

Sömuleiðis var honum falið að skoða það sem var mikið álitaefni líka, hvort gerlegt væri án þess að gengið væri á svig við stjórnarskrána að láta ákvæði frumvarpsins líka ná yfir fyrirtæki sveitarfélaga sem væru í blandaðri eign, þ.e. fyrirtæki sem í senn væru í eignarhaldi sveitarfélaga og þar með opinbers og hins vegar líka fyrirtæki á markaði. Sérfræðingurinn komst að þeirri niðurstöðu að á því léki umtalsverður vafi. Ég tók þá ákvörðun að ég mundi þá ekki leggja þetta fram þó að hugur minn stæði til þess. Ég hef aldrei dulið neinn þess. En ég taldi að ef það er álit sérfræðings með þann þunga sem Eiríkur Tómasson prófessor hefur að það væri umtalsverður vafi sem léki á því, þá vildi ég ekki taka þá áhættu

Í því efni var ég fyllilega samkvæmur sjálfum mér og vísa þá til ummæla minna í umræðum við fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson í tengslum við fjölmiðlafrumvarp sem hér var lagt fram á sínum tíma þegar sá ágæti forveri hv. þm. Guðna Ágústssonar sagði: „Við skulum þá láta reyna á það fyrir dómstólum.“ Þetta frumvarp er lagt fram með hreint borð að því leyti til að í því er ekkert að finna sem hægt er að segja að sá sem fremstur gengur í fylkingu þeirra sem eru sérfræðingar í þessum málefnum, telur að brjóti gegn stjórnarskránni, þvert á móti.

Í þessari umræðu hefur það samt sem áður komið fram að menn eru enn að velta því fyrir sér að sú staðreynd að hér er lagt til að löggjafinn skipi með þeim hætti sem í frumvarpinu finnst málefnum sveitarfélaga brjóti í bága við 78. gr. stjórnarskrárinnar sem varðar sjálfsforræði sveitarfélaganna. Ég vísa aftur til þess að þessi sérfræðingur komst að annarri niðurstöðu. Við gætum líka gagnályktað út frá þeirri staðhæfingu sem felst í fullyrðingunni um að frumvarpið brjóti þetta ákvæði stjórnarskrárinnar. Þá hlýtur að mega gagnálykta að margt annað sem löggjafinn hefur sett fram og samþykkt sem varðar málefni sveitarfélaga, eins og skipan skóla, hljóti líka að brjóta í bága við það, eða þá það sem enginn í þessari umræðu hefur talið að sé í andstöðu við 78. gr., þ.e. aðskilnaðarkrafan sem hér er að finna. Hún beinist líka að fyrirtækjum sveitarfélaga og ef það er í andstöðu við 78. greinina að skipa réttindum þeirra með þessum hætti þá hlýtur það líka að vera í andstöðu við þá grein að setja fram aðskilnaðarkröfuna með þeim hætti sem hér er gert. En það hefur enginn fett fingur út í það. Ég dreg þá ályktun þegar ég horfi yfir farinn veg genginna ríkisstjórna að það séu til svo mörg dæmi um að með þessum hætti, með almennum hætti þar sem öll sveitarfélög njóta jafnræðis og eru undir sömu kvaðir seld, sé þetta fyllilega heimilt.

Ég tel að í þessu tilviki — og ég dvel sérstaklega við þetta, frú forseti, vegna þess að mér finnst að þetta hafa verið meginágreiningsefnið sem hefur komið fram með rökum í þessari umræðu — þá tel ég að eðli málsins sem við erum að ræða sé þannig að það séu enn sterkari rök fyrir því að þetta sé gert og réttindin séu með þessum hætti felld í þann farveg sem er að finna í frumvarpinu vegna þess í fyrsta lagi þegar sveitarfélög eiga í hlut eins og ég hef hér aðeins rökstutt þá verður að teljast að löggjafinn geti gengið lengra en ella enda sé það gert með almennum hætti og það sé algjörlega í gadda slegið að það sé fullt jafnræði með öllum sveitarfélögum. Svo er í þessu tilviki.

Í öðru lagi þá vísa ég til þess að tilgangurinn með þessu frumvarpi er sá að tryggja til frambúðar aðgang allra íbúa sveitarfélaganna, allra landsmanna, að auðlindunum og þar með þeirri nauðþurft sem felst í aðgangi að orku. Í þriðja lagi tel ég að það séu rök í málinu að við erum hér að ræða um takmarkaðar auðlindir sem allir þurfa að fá aðgang að til þess að frumþörfum þeirra sé sinnt. Það skiptir í mínum huga máli.

Síðan er það að sjálfsögðu lykilatriði í þessari röksemdafærslu að þó að takmarkanirnar sem settar í þessu frumvarpi gagnvart sveitarfélögunum feli í sér að þau geti ekki framselt varanlega þá eru þau eigi að síður ekki svipt réttinum til þess að leyfa afnot af þeim til takmarkaðs tíma. Þetta eru lykilatriði þegar menn deila um það hvort þarna sé gengið of nærri stjórnarskránni hvað sveitarfélögin varðar.

Ég held að hægt sé að benda á svo mörg fyrri dæmi um að einmitt á grundvelli þeirra raka sem ég hef hér rakið þá hefur löggjafinn um langa hríð, haft meiri og minni afskipti af meðferð og ráðstöfun sveitarfélaganna á auðlindum af þessum toga.

Frú forseti. Í fyrri andsvörum mínum í dag hef ég lagt á það ríka áherslu að svara öllum þeim spurningum sem til mín hefur verið beint og ég held að ég hafi tæmt þær spurningar. Þó er það svo að hv. þm. Guðni Ágústsson beindi til mín fyrirspurn sem varðaði 12. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um það að hitaveitur skuli ávallt vera að lágmarki í tveimur þriðju hlutum í eigu opinberra aðila. Hv. þingmaður spurði mig sérstaklega út í það hvort hér væri einnig átt við þær liðlega 200 einkahitaveitur sem meðal annars er drepið á á blaðsíðu sjö í þessu frumvarpi eða þá þær hitaveitur, eins og hv. þingmaður orðaði það, sem bændur kunna að setja upp í dreifbýlinu í framtíðinni eða þar sem opinberir aðilar sjá ekki grundvöll fyrir rekstri hitaveitna. Hv. þingmaður spurði mig hvort það væri ætlun iðnaðarráðherra að þjóðnýta þessar 200 einkahitaveitur. Það er alveg ljóst í þessu frumvarpi, frú forseti, að hér er um að tefla þær hitaveitur sem hafa sérleyfi og það kemur alveg skýrt fram að það er með engu móti verið að seilast til þessara smáu litlu einkahitaveitna né þeirra sem kunna að verða reistar í framtíðinni, það kemur fram með margvíslegum hætti í frumvarpinu að svo er ekki. Þetta vil ég nú segja vegna þess að hv. þingmaður lagði á þetta mikla áherslu í sínu máli.

Það gladdi mig mjög í þeirri umræðu sem hér var í dag að heyra þann skilning sem hv. þm. Ólöf Nordal hafði á meginatriðum í þessu frumvarpi. Hv. þingmaður hafði ekki, eftir þær umræður sem urðu áður en hún hélt sína tölu, neinar sérstakar áhyggjur af því til dæmis að auðlindin verði of hart keyrð í því kerfi sem lagt er til í frumvarpinu, þ.e. undir lok framleigutímans. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um þetta.

Hv. þingmaður vísaði líka til þess kerfis sem er í Noregi og sagði að þar væru menn með 60 ára tíma. Ég skildi hv. þingmann þannig. Ég taldi reyndar að það væri 90 ára tími. Grundvallarmunurinn til dæmis á kerfinu sem hefur verið þar lengi við lýði og hér er sá að í Noregi er bókstaflega ætlast til þess að þegar leigutímanum lýkur þá skili sá sem hefur rekið og reist og fjármagnað viðkomandi virkjun henni með manni og mús til ríkisins, afhendi eignina. Um þetta er auðvitað deilt og hefur verið deilt. Þetta málefni hefur komið til kasta þeirra sem véla um hvað er rétt og rangt samkvæmt EES.

Ég er þeirrar skoðunar að með þessu frumvarpi sé farin ákveðin millileið, hugsanlega málamiðlun og ég fyrirverð mig ekki fyrir að segja það. Hér er sem sagt verið að tryggja að það eignarhald sem núna er undir umsjá opinberra aðila breytist ekki. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í dag. „Ja, það er nú ekkert merkilegt. Ef það væri gerð skoðanakönnun þá mundi þjóðin öll vera á móti því hvort sem er.“ Það kann vel að vera rétt í ljósi nýlegrar atburðarásar. En það var ekki svoleiðis fyrir ári og það kann að vera breytt eftir ár þannig að hér eru menn að draga ákveðna varnarlínu.