135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[20:04]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi að til væru slíkar varnarlínur þegar kemur að heilbrigðiskerfinu sem ríkisstjórnin er að einkavæða núna því miður með þögn Samfylkingarinnar, en það eru önnur ráð til og það er að taka málið til umræðu í ríkisstjórn og stöðva þetta. Það er mál sem á eftir að koma hér til umræðu.

Varðandi framleiguréttinn og skaðsemi þess hvað getur gerst undir lok hans, 65 ára tímabilsins, þá legg ég til að við förum rækilega í reynslu annarra þjóða af því, ég ætla ekki að tjá mig um það, en minni á hitt að fyrir nokkru síðan, nokkrum missirum eða árum, var lögum um vatnsveitur í landinu breytt. Það var heimilað að gera þær að hlutafélögum. Þetta er ekki bara spurning um eignarhald, þetta er líka spurning um fyrirkomulag, því að þar með voru vatnsveiturnar færðar inn í annað umhverfi, undir samkeppnislög, inn á markaðinn. Það er það sem ég hef ákveðnar efasemdir um hvað þetta varðar. Í þeim lögum var ákvæði um að vatnsveitur skyldu vera að meiri hluta til í eign hins opinbera. Hér erum við að tala um hærri þröskuld, 2/3, sem orkufyrirtækin eiga að vera í eign opinberra aðila.

Vatnsveituniðurstaðan var málamiðlun. Ég var ekki sáttur við þá málamiðlun í reynd þó að það væri skárri niðurstaða en upphaflegt frumvarp kvað á um. Ég hefði viljað hafa vatnsveiturnar algjörlega í opinberri eign á sama hátt og ég vil hafa orkuveiturnar í opinberri eign.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra sem talar um málamiðlun í þessu máli: Var það málamiðlun við Sjálfstæðisflokkinn að fara þessa leið eða telur hæstv. ráðherra það vera heppilegt, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði áðan, að einkafjármagnið komi inn í þennan geira? Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson talaði um nýjar virkjanir. (Forseti hringir.) Telur hæstv. ráðherra heppilegt að einkafjármagnið komi inn í þennan geira eða er hér um að ræða (Forseti hringir.) málamiðlun gagnvart Sjálfstæðisflokknum?