135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

innrás Ísraelsmanna á Gaza.

[15:04]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna árása Ísraelshers á Gaza-svæðið með miklu mannfalli og hrikalegum afleiðingum. Á síðustu fimm dögum hafa á annað hundrað manns verið drepnir, þar af tugir barna. Síðastliðinn laugardag féllu 67 manns. Það leikur ekki nokkur vafi á því að Genfarsáttmálinn frá 1949, sem kveður á um vörn almennings í stríði, hefur verið margbrotinn og það eitt ætti að nægja til þess að íslensk stjórnvöld brygðust við enda eigum við aðild að þeim sáttmála.

Ísraelsk stjórnvöld hafa haldið íbúum Gaza innilokuðum í níu mánuði samfleytt og er nú svo komið að nauðsynjar allar eru þar af mjög skornum skammti. Matvæli og mörg lyf eru ófáanleg, lækningatæki að sama skapi, lokað hefur verið fyrir eldsneyti og rafmagn og þetta hefur haft það í för með sér að vatnsdælur við brunna stöðvast og sömuleiðis við dælur sem dæla burt skolpi.

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna komið harðri fordæmingu á framfæri við ísraelsk stjórnvöld og hér á landi hafa aðilar gert hið sama. Sveinn Rúnar Hauksson, sem hefur látið sig mjög varða mannréttindabaráttu í Palestínu, sendi frá sér yfirlýsingu í gær í nafni samtakanna Ísland – Palestína og krafðist þess að Íslendingar slitu stjórnmálasambandi við Ísrael.

Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hvað ríkisstjórnin hyggist gera. Ég tel það vera grundvallaratriði að þegar í stað komi hún (Forseti hringir.) mjög eindregnum og hörðum mótmælum Alþingis á framfæri við ísraelsk stjórnvöld.