135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

vandi landbúnaðarins og staða lífeyrissjóða.

[15:12]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi lífeyrissjóðina. Þetta eru þekktar staðreyndir sem hv. þingmaður rakti hér um stærð þeirra og styrk og það er eitt af því sem sker sig úr á Íslandi að lífeyrissjóðirnir eru þetta öflugir en sums staðar annars staðar eru þeir byrði á ríkissjóði viðkomandi landa. Þegar ríkisvaldið ræðir við aðila vinnumarkaðarins, vinnuveitendur og launþega, þá er líka óbeint verið að tala við lífeyrissjóðina vegna þess að þessir aðilar stjórna lífeyrissjóðunum og hafa með málefni þeirra að gera og þeir koma því óbeint inn í þetta. En að kalla þá til með sjálfstæðum hætti hefur ekki verið sérstaklega rætt, enda skiptir miklu máli að þeir haldi sjálfstæði sínu, m.a. varðandi þá fjárfestingarstefnu sem þeir reka, sem hefur í gegnum allmörg ár skilað mjög góðri ávöxtun, m.a. í þeim fyrirtækjum sem hafa verið í hinni svokölluðu útrás. Nú hefur að vísu aðeins slegið í bakseglin varðandi þær fjárfestingar á síðasta ári eins og kunnugt er. Auglýsingar eru að birtast frá lífeyrissjóðunum um afkomu þeirra á síðasta ári og hún er ýmist í járnum eða örlítið réttu megin við strikið en þó miklu lakari en undanfarin ár. Það sem skiptir máli varðandi fjárfestingu lífeyrissjóðanna er auðvitað það að hún er til langs tíma og útreikningsaðferðir þeirra reikna með 3,5% ávöxtun á ári til mjög langs tíma og við erum langt yfir því marki sem betur fer.

Varðandi landbúnaðinn þá er það alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þar steðja nú að óvænt vandamál. Þau vandamál eru hins vegar áfall fyrir þjóðarbúið í heild og munu fyrr eða síðar bitna á landsmönnum hvort sem það er beint í hærra vöruverði eða óbeint með einhvers konar þátttöku ríkissjóðs sem landsmenn borga í. Vandinn er tiltölulega nýtilkominn, við þurfum að rannsaka hann betur áður en einhverjar ákvarðanir eru teknar um aðkomu ríkisins en vissulega er þetta vandamál sem við þurfum öll að hugleiða á næstunni.