135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

vandi landbúnaðarins og staða lífeyrissjóða.

[15:16]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Varðandi landbúnaðarmálin þá er þessi vandi tiltölulega nýtilkominn. Verðlagsþróun á erlendum mörkuðum hvað varðar áburð, fóður og annað þess háttar er ný, ef svo má segja. Þessi mál tóku þessa stefnu tiltölulega nýlega þannig að vandinn er ekki bara innfluttur. Hann er líka tiltölulega nýtilkominn. Við þurfum að átta okkur á því hvernig við bregðumst við því.

Hins vegar felast að mínum dómi líka tækifæri í þessum aðstæðum fyrir íslenskan landbúnað. Ég er alveg sannfærður um það að við getum unnið góða markaði til að mynda fyrir mjólkurafurðir okkar í Evrópu og jafnvel víðar ef við höldum vel á málum. Því að afurðirnar úr íslenska landbúnaðinum, eins og hv. fyrrverandi landbúnaðarráðherra þreytist aldrei á að segja, eru einkar góðar og hollar. Og ef þær fást líka á hagstæðu verði þá er ekkert vafamál að við getum gert okkur góðan mat úr því.