135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[16:42]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Vegna upphafsorða hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar er rétt að taka fram að við sem höfum efasemdir um að þetta frumvarp standist jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar erum sennilega fæst á þeirri skoðun hið sama gildi um reglur um starfskostnað og ferðakostnað sem hér eru settar. Þar er um fullkomlega málefnalegar forsendur að ræða. Menn þurfa að ferðast um kjördæmi sitt og hafa væntanlega meiri kostnað af slíkum ferðum en þingmaður í borginni, t.d. í norðurkjördæminu í Reykjavík sem nær yfir þetta hús.

Þegar um slíkan mismun er að ræða er hin almenn skoðun sú að hann verði að vera byggður á málefnalegum forsendum. En þær málefnalegu forsendur eru ekki fyrir hendi í þessu frumvarpi, greinargerðinni, breytingartillögum meiri hluta allsherjarnefndar eða í rökstuðningi með þeim. Þar kemur hvergi fram hvaða störf þessi aðstoðarmaður eigi að hafa með hendi utan þess að forsætisnefnd hefur samkvæmt þeim textum sem hér liggja frammi kveðið á um að aðstoðarmaðurinn verði heima í héraði, sem tryggir að minnsta kosti að honum sé ókleifara en ella að aðstoða þingmanninn í þeim störfum sem fara fram á þinginu sjálfu.

Það er m.a. þetta sem er órökrétt við málflutninginn allan. Ég bið um rök hv. þingmanns fyrir því gati sem hér hefur myndast um hinar málefnalegu forsendur fyrir því að landsbyggðarþingmaður eigi að hafa einum þriðja meira af aðstoðarmanni en þingmaður á höfuðborgarsvæðinu, eins og fram kom í máli hans.