135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[16:50]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð nú að segja að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kemur hér og ávítar þingmenn fyrir að tala niður til annarra. Mér fannst hv. þingmaður í ræðu sinni tala afskaplega mikið niður til margra þingmanna og geri athugasemd við það.

Það er hægt að hafa mörg orð um forsögu málsins sem margir þekkja betur en aðrir. Að sjálfsögðu þegar það er haft í huga hefði auðvitað verið eðlilegt að ganga frá því samkomulagi sem þá var gert á sínum tíma í tengslum við kjördæmabreytinguna. Það var ekki gert og það er að mínu mati ómálefnalegt að tengja það síðar á síðari stigum eins og gert var hér á hv. Alþingi við aðrar breytingar sem lúta að vinnubrögðum í þingsal og þingsköpum. Það er mjög ómálefnalegt að gera það. En það var engu að síður gert.

Ég vil aðeins segja út af þessu með jafnræðisregluna: Ég er þeirrar skoðunar að í raun sé meiri hluti allsherjarnefndar að bíta höfuðið af skömminni með breytingartillögum sínum vegna þess að í fyrsta lagi er tekið undir það að það kunni að vera efasemdir um að þessar breytingar standist jafnræðisregluna — það kom fram í máli meðal annars þingmanna hér áðan — og hvað gerir þá allsherjarnefndin? Jú, í raun og veru skrifar hún það inn í frumvarpið að það megi mismuna. Sem sagt, hún heldur að hún geti sett undir lekann sem hugsanlega brot á jafnræðisreglunni er með því að skrifa það inn í textann að það megi mismuna þingmönnum. Ég botna ekki svona. Þetta er algerlega ofvaxið mínum skilningi.

Síðan vil ég líka segja að þegar verið er að tala um mismunandi aðstöðu þingmanna höfuðborgarsvæðisins, Reykjavíkurkjördæmanna beggja og Suðvesturkjördæmis annars vegar og landsbyggðarkjördæmanna hins vegar, þá má segja að aðstöðumunurinn sé mikill ef viðmiðið hjá hv. þingmanni eru ferkílómetrarnir sem hann á að dekka en ekki fjöldi íbúanna eða fjöldi kjósenda. Það vill nefnilega þannig til að það er ekki eins og þingmaðurinn segir að hér haldi þingmenn til dæmis í Reykjavík bara einn fund á meðan í landsbyggðarkjördæmunum þurfi menn að fara mikið á milli. Á þá þingmaður eins og ég til dæmis fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður að halda bara einn útifund í Laugardal og halda að ég nái þar með til allra íbúa þessa svæðis? Þetta er auðvitað bara fullkomið rugl.

Hins vegar geta kannski verið aðrar aðstæður og leiðir og aðferðir sem menn verða að nota til að mæta og ná til sinna kjósenda og þá á að taka tillit til þess. Það er ekki gert hér í þessu samhengi.