135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[16:52]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ólíku saman að jafna ef annars vegar allir íbúar kjördæmisins búa á örfáum ferkílómetrum eða dreifa sér yfir mjög stórt svæði og mörg mismunandi byggðarlög. Það eru bara mismunandi aðstæður sem er eðlilegt að taka tillit til. Það finnst hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og þess vegna skrifar hann undir þetta álit sem ég var að rekja hér, árið 2000 og hitt álitið sem ég rakti, árið 1999.

Ég minni á greinargerð þingflokks Vinstri grænna frá því í desember núna fyrir síðustu jól, 3. desember, þar sem fjallað er um þingskapafrumvarpið sem þá var uppi. Í þeirri greinargerð segir að það eigi ekki að blanda breytingum á þingsköpum saman við starfsaðstæður þingmanna sem lagt er til að bæta og, með leyfi forseta, segir í þessum texta sem er hér birtur í nefndaráliti hv. þm. Atla Gíslasonar:

„... að réttindi stjórnarandstöðunnar að þessu leyti eigi að vera föl fyrir smávægilegar lagfæringar sem löngu átti að vera búið að grípa til á starfsaðstæðum þingmanna eða til þess að efna níu ára gömul loforð tengd síðustu kjördæmabreytingu.“

Svo kemur, virðulegi forseti:

„Bættar starfsaðstæður þingmanna eru auðvitað sjálfstætt mál og þær á að bæta óháð breytingu á lögum um þingsköp.“

Sjálfstætt mál, segir hér (Gripið fram í.) og svo þegar málið kemur hér til þingsins getur þingflokkurinn ekki einu sinni stutt það.