135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[16:58]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að flytja langt mál, einfaldlega vegna þess að ég hef áður gert mjög rækilega grein fyrir sjónarmiðum mínum. Ég gerði það við 1. umr. þessa máls og einnig í tengslum við afgreiðslu þingskapafrumvarpsins fyrir jól, en eins og menn vita og þekkja voru þær breytingar sem við erum nú með til umfjöllunar fast tengdar því frumvarpi.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, staðhæfði að þetta væri allt saman unnið í góðri samvinnu stjórnar þingsins og formanna þingflokka. Ég vil minna á að Vinstri hreyfingin – grænt framboð stendur ekki að frumvarpinu, stóð ekki að þingskapafrumvarpinu fyrir jólin og ekki að þessu máli heldur. Þótt hv. þm. Siv Friðleifsdóttir megi hafa sínar hugmyndir um hversu vel þingskapafrumvarpinu hafi verið tekið í þjóðfélaginu er ég gagnstæðrar skoðunar þó að ég ætli ekki að gera það að sérstöku umfjöllunarefni hér.

Menn hafa farið í sögulega upprifjun og svo er að skilja að ýmsir telji að þingmenn almennt eigi að vera fastreyrðir í einhverjar sögulegar viðjar vegna samkomulags sem gert var hér undir aldamótin í tengslum við kjördæmaskipan og breytingar á kjördæmaskipan, stjórnarskrárbreytingarnar 1999. Ég vil að það komi fram að ég hef alltaf haft efasemdir bæði um kjördæmabreytinguna sem þá var gerð og einnig um þær hugmyndir sem þá voru á kreiki varðandi aðstoðarmannafyrirkomulagið sem nú er til umfjöllunar. Það sem skiptir mestu máli núna er að við tökum afstöðu til málsins, hvert og eitt, á grundvelli þess sem við teljum heppilegasta fyrirkomulagið. Við erum væntanlega að skapa þinginu starfsskilyrði til langs tíma, það sem við gerum nú kann að hafa áhrif í framtíðinni þannig að það skiptir mjög miklu máli hvernig að verki er staðið.

Ég hef lýst því yfir fyrir mitt leyti að mér finnist heppilegast til að styrkja Alþingi, og þar með stjórnarandstöðuna gagnvart framkvæmdarvaldinu og meirihlutavaldinu hér á þingi, að efla nefndasvið þingsins. Það hjálpar okkur þingmönnum mest í okkar daglegu önn við að smíða lagafrumvörp, hafa áhrif á lagafrumvörp sem koma frá stjórnarmeirihlutanum hverju sinni og rækja skyldur okkar varðandi aðhald við framkvæmdarvaldið. Þetta tel ég vera heppilegustu leiðina fyrir þingið til að styrkja stöðu sína.

Hvað varðar hugmyndir um að styrkja landsbyggðina sérstaklega er ég á þeirri skoðun að slíkur stuðningur eigi að renna til stjórnmálaflokkanna sem eininga og það sé þá eðlilegt að þeir láti fjármagn af hendi rakna til að styrkja starfið á landsbyggðinni. Og ég kaupi alveg þau rök að landsbyggðin situr að þessu leyti ekki við sama borð og þéttbýlið hér á suðvesturhorninu sem er í nánd við þingið. Hvað varðar hins vegar stöðu einstakra þingmanna í sínu starfi kaupi ég ekki þær röksemdir sem hér hafa verið reiddar fram, alls ekki.

Mér fannst umhugsunarvert að hlýða á röksemdir hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar í því efni. Annars vegar er hann að tala um hinar dreifðu byggðir og hvernig jafna þurfi aðstöðumun þingmanna þar og síðan hér á þéttbýlissvæðinu. Í hinu orðinu segir hann að styrkja þurfi þingmennina á landsbyggðinni sem einstaklinga, það var það sem hv. þingmaður sagði. Hann sagði að með því að hafa aðstoðarmanninn persónulegan ráðgjafa eða aðstoðarmann einstakra þingmanna, tiltekinna þingmanna, væru þessir sömu þingmenn óháðir flokksforustunni hvort sem væri hér á þingi, þingflokksforustunni, eða flokksforustunni. Með öðrum orðum væri verið að styrkja þingmennina sem einstaklinga. Þá getum við aftur farið að tala um jafnræðismál og þá kröfu sem er að vaxa hér upp að öllum þingmönnum í hvaða kjördæmi sem þeir eru beri slíkir aðstoðarmenn.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti, það er mín persónulega skoðun, að ég tel peningum skattborgaranna ekki vel ráðstafað með því móti, mér finnst það ekki vera réttlætanlegt, alls ekki. Ég væri ekki tilbúinn að greiða skatta til að láta þá renna inn í slíkt fyrirkomulag, húsbænda og hjúa fyrirkomulag. Hugsunin er sú að aðstoðarmennirnir verði nánast persónulegir þjónar einstakra þingmanna. Ég er algerlega andvígur slíku fyrirkomulagi. Ég er fylgjandi því að styrkja nefndasviðið, ég er fylgjandi því að styrkja stjórnmálastarfsemina, ég er fylgjandi því að láta meiri krafta renna til dreifðra byggða á vegum stjórnmálaflokkanna, ekki á vegum einstaklinga eða til að þjóna einstaklingum, ég er algerlega andvígur því fyrirkomulagi.

Hvað sem menn kunna að hafa rætt undir síðustu aldamót hér í þinginu hef ég alla tíð verið þessarar skoðunar. Og ég vil taka það fram að í okkar flokki hefur verið rætt mjög opið um þessi mál og þar er borin virðing fyrir þeim sjónarmiðum sem við hvert og eitt reiðum fram í þessu efni. Þannig á að sjálfsögðu að tala um þetta, ekki eins og mér hefur fundist bera við í máli einstakra aðila hér og vísa ég þá í hv. þm. Kristin H. Gunnarsson sérstaklega, sem fór í þessar sögulegu upprifjanir, og hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, að menn eigi að vera bundnir á höndum og fótum vegna samkomulags sem gert sé fyrir okkar hönd. Þannig er það ekki. Við eigum að tala um þetta opið og fordómalaust og taka afstöðu til málsins á grundvelli þess sem við teljum best og heppilegast út frá okkar eigin dómgreind og samvisku.