135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:37]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Jón Magnússon) (Fl):

Virðulegi forseti. Mér hafa fundist þær umræður sem hér hafa farið fram að verulegu leyti gagnlegar og að hluta til hafa þær varpað skýrara ljósi á ýmislegt sem mátti ætla að væri á huldu. Mér fannst mjög ánægjulegt að heyra skýringar hv. þm. Ellerts B. Schrams á þeim sjónarmiðum sem hann rakti rétt áðan, sem ég skil á þann veg að þau hafi verið forsenda þess að hann er einn af þeim sem mynda þann meiri hluta sem hér um ræðir. En þingmaðurinn benti á að það væri meginregla samkvæmt frumvarpinu að ráða aðstoðarmenn við þingmenn og síðan væri það spurningin um frávik frá þeirri meginreglu. Meginreglan er sem sagt sú að þingmenn ráða sér aðstoðarmann. Ég skil hv. þm. Ellert B. Schram á þann veg að hann telji að það sé það sem felist í frumvarpinu, að meginreglan sé sú að aðstoðarmaður skuli vera fyrir þingmenn. Punktur.

Síðan komi undanþáguákvæðið, eða frávikið eins og hv. þingmaður talaði um. Hann gat þess jafnframt að ætlunin væri að útvíkka þetta kerfi þannig að öllum verði gert jafnhátt undir höfði. Ég gat ekki skilið orð hv. þingmanns með öðrum hætti en þeim að stuðningur hans við frumvarpið byggðist á þeim sjónarmiðum. Ég tel þetta fyllilega málefnalegar ástæður og gott innlegg í umræðuna. Mér finnst eðlilegt að þeir sem væntanlega eiga eftir að fjalla um þetta mál hér á eftir mér, þ.e. hæstv. forseti Alþingis og síðan talsmaður meiri hluta allsherjarnefndar, hv. þm. Birgir Ármannsson, geri grein fyrir því hvort þetta sé einnig þeirra skilningur. Hvort þeir telji að það sé í raun verið að fara að eins og segir í breytingartillögu sem ég hef lagt fram, varðandi ákvæði til bráðabirgða, um að eingöngu sé miðað við þá fjárveitingu sem hér er um að ræða fyrir þetta almanaksár, en að öðru leyti sé miðað við það að í framtíðinni taki þetta kerfi til allra þingmanna. Ég gat ekki skilið orð hv. þm. Ellerts B. Schrams öðruvísi en svo að hann teldi að þannig ætti það að vera.

Raunar má segja að ummæli með áliti meiri hluta allsherjarnefndar verði tæpast skilin með öðrum hætti en þeim sem hv. þm. Ellert B. Schram var að tala um. En að gefnu tilefni finnst mér eðlilegt að bæði formaður allsherjarnefndar og hæstv. forseti Alþingis geri grein fyrir því hvort þeir eru sama sinnis hvað þetta varðar. Það skiptir mjög miklu máli.

Ég get síðan tekið undir það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði, að hann gæti ímyndað sér að hægt væri að verja skattpeningum almennings mun betur. Það var líka mjög þörf ábending hjá hv. þm. Merði Árnasyni að iðulega hefði verið talað um aukna aðstoð við þingmenn í tengslum við það að fækka þingmönnum. Það væri nauðsynlegt að skoða og þá er það spurning með hvaða hætti og hvernig við ætlum að haga kjördæmaskipuninni.

Eins og ég hef ítrekað talað um í þessu máli, og reyndar líka þegar þingskapafrumvarpið var til umræðu fyrir áramót, lít ég á störf þingmannsins sem störf fyrir þjóðina sem slíka, ekki fyrir einstök kjördæmi. Þar af leiðandi veltir maður því fyrir sér hvort það sé ekki röng aðferðafræði að hafa kjördæmaskipunina með þeim hætti sem er að hólfa þetta niður í ákveðin hólf. Kannski væri það réttlætanlegt ef við værum með einmenningskjördæmi, tvöfalda umferð og meirihlutakjör. En af því að við erum með það fyrirkomulag sem um er að ræða þá er hreinlega spurning hvort ekki sé réttast að landið allt sé eitt kjördæmi. Þá þyrftu menn ekki að deila um mun á atkvæðavægi, sem er óneitanlega allt of mikill og alveg á mörkum þess að geta talist í samræmi við eðlilegar lýðræðishefðir, þá þyrftu menn ekki að velta því fyrir sér að einhverjir þingmenn hefðu einhverja umbun umfram aðra með tilliti til kjördæmisins. Ég hallast satt að segja að því að eðlilegt væri að fara að vinna að því að breyta kjördæmaskipaninni með þeim hætti að landið allt væri eitt kjördæmi.

Það er dálítið ankannalegt, og í sumum tilvikum undarlegt, með hvaða hætti þingmönnum eru skömmtuð eða veitt kjör. Mér skilst að ég sem þingmaður fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður geti farið á veitingastað sem er í Reykjavíkurkjördæmi norður og fengið greiðslu vegna þess að þá er ég farinn út úr mínu kjördæmi. Þingmaður sem býr á Selfossi og er þingmaður fyrir Suðurkjördæmi fær aftur á móti ekki slíkar greiðslur ef hann fer til Hornafjarðar og borðar þar en getur fengið slíkar greiðslur ef hann fer til Hafnarfjarðar. Sé þetta rétt, sem mér hefur skilist, og ég get ekki skilið annað af þeim texta sem gildir, sjá menn í hvers konar fáránleika menn eru komnir með ýmsa hluti — til viðbótar við það sem hv. þm. Mörður Árnason benti á varðandi akstursleiðir og annað.

Ég velti líka tvennu fyrir mér og er mér satt að segja dálítið umhugað um það. Það er annars vegar að flokkarnir sem slíkir geti byggt upp ákveðið þekkingarsetur þannig að þeir séu tilbúnir til og hafi möguleika og aðstöðu til að taka afstöðu til einstakra mála á grundvelli heildarupplýsinga um þau mál sem fyrir liggja hverju sinni. Jafnframt skiptir mjög miklu máli að þingmenn hafi ákveðið sjálfstæði, að þess sé gætt að flokksræðið taki ekki yfir. Þá skiptir máli að þingmenn hafi ákveðin einstaklingsbundin úrræði eins og lagt er til í frumvarpinu að sumir þingmenn hafi, þ.e. að þingmenn geti haft ákveðna aðstoð. Þetta eru þau sjónarmið sem máli skipta og umræða um þau er mjög þörf. Ég tek undir það sem hv. þm. Mörður Árnason sagði að við erum ekki bundin af einhverju samkomulagi sem gert var á síðustu öld sem raunar var staðið við með því að veita flokkunum 50 millj. kr. til skipta frá árinu 2000. Í sjálfu sér skiptir það okkur ekki máli hvort þeir misfóru með það fé eða hvernig þeir fóru með það, að öðru leyti en því að hafi þeir misfarið með það þá er það þeim ekki til sóma.

Varðandi það hvort ákvæðið brjóti í bága við stjórnarskrá og sú umræða að um það hafi verið talað varðandi EES-samninginn og enginn hafi látið á það reyna, þá er það nú einu sinni þannig að samkvæmt okkar lagareglum hefur Alþingi lagasetningarvaldið. Og það er alveg rétt að lög frá Alþingi gilda nema annað komi í ljós. Það hefur gerst að lög hafa verið samþykkt á Alþingi sem síðan hafa verið ógilt í Hæstarétti. Ef enginn hefði látið á það reyna hefðu menn getað sagt: Það er enginn sem segir að eitthvað sé athugavert við þessi lög.

Ég ætla að benda á tvö atriði sem ég þekki til varðandi hæstaréttardóma. Það er annars vegar þegar Alþingi setti lög um að ekki mætti gefa út ákveðin rit sem hefðu verið búin til fyrir ákveðið ártal. Nóbelskáldið Halldór Laxness stóð með forleggjaranum Ragnari Jónssyni að útgáfu á Hrafnkelssögu Freysgoða sem farið var í mál út af. Niðurstaðan varð sú að þeim var það auðvitað heimilt vegna þess að lögin sem Alþingi hafði samþykkt brutu í bága við stjórnarskrá.

Með sama hætti samþykkti Alþingi á sínum tíma víðtækt valdaframsal til landbúnaðarráðherra um að leggja ákveðnar álögur á ákveðna vörutegund. Það mál þekki ég gjörla. Talið var að þar hefði verið um það að ræða að brotið hefði verið í bága við stjórnarskrá vegna þess að látið var á það reyna. En af hverju var látið á það reyna? Jú, það var vegna þess að handhafar hins opinbera voru á grundvelli þessara ólaga búnir að fara fram með skattheimtuvaldi og jafnvel að fangelsa einstaklinga sem aldrei nokkru sinni hafa fengið bætur fyrir það. Þegar um það var að ræða að einstaklingarnir fóru fram á að fá bætur vegna ólögmætra fangelsana á grundvelli laga sem voru andstæð stjórnarskrá sagði ríkisvaldið: Það er fjögurra ára fyrningarregla sem gildir og þar af leiðandi fáið þið engar bætur. Það er töluvert annað heldur en forsætisráðherra hefur úttalað sig um núna að geti átt við varðandi þá sem hafa orðið fyrir búsifjum vegna aðgerða opinbers valds. En þarna var um að ræða menn sem voru settir saklausir í fangelsi á grundvelli ólaga frá Alþingi.

Þegar Alþingi hefur sett lög sem jafnvel brjóta í bága við stjórnarskrá þurfa borgararnir að sætta sig við það og jafnvel að hlíta lögum sem eru ólög og standast ekki nema á það sé látið reyna. Það er þess vegna sem skiptir máli fyrir Alþingi að standa svo að lagasetningu að reyna til hins ýtrasta að taka af öll tvímæli um að ekki sé verið að brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrár. Það er þess vegna sem við eigum að vanda til lagasetningar. Það er þess vegna sem ég fór fram á það í allsherjarnefnd að kallaðir yrðu til okkar færustu sérfræðingar í stjórnskipunarrétti. Það hefði þurft að fara í gegnum þetta mál með þeim til þess að taka af öll tvímæli í viðræðum við þá um það hver þeirra sjónarmið væru. Eins og ég hef getið um hér áður er ég ekki dómari í sjálfs mín sök um það hvort verið sé að brjóta á mér jafnræðisreglu þó ég telji svo vera.

Ég vil gjarnan fá að heyra hvað okkar færustu fræðimenn í stjórnskipunarrétti, stjórnskipunarlögum, hafa um málið að segja. Af því mér finnst það skipta máli fyrir Alþingi að afgreiða ekki lög með því að „ef til vill og kannski“ kunni þetta að vera svona en það skipti engu máli vegna þess að aldrei muni koma til þess að lögin verði ógild nema ef einhver láti á það reyna. Hvað þýðir það? Það þýðir þá að hugsanlega verður þingmaður neyddur til þess að láta á það reyna og þyrfti þá kannski að fara í sérstakt dómsmál til þess. Í sjálfu sér væri það ekki skemmtilegt eða eitthvert keppikefli fyrir einn eða neinn, en það er það sem er í raun verið að segja með þessum orðum.

Varðandi ójafnt vægi atkvæða og annað þá er það grundvallarregla að borgararnir kjósa í lýðræðislegum kosningum og þeir eiga að hafa jafnt vægi. Eins og ég hef bent á er hægt að leysa það með því að landið allt verði eitt kjördæmi, það verður tæpast leyst til fullnustu öðruvísi.

Á það var bent í andsvari formanns allsherjarnefndar, mig minnir að það hafi verið hann, að menn hefðu talið að í ákveðnu ákvæði í frumvarpinu eins og það lítur út væri um of víðtækt framsal lagasetningarvalds að ræða. Þetta tvennt hafði ég formlega við frumvarpið að athuga í upphafi, að um of víðtækt framsal lagasetningarvalds væri að ræða og hins vegar að um brot á jafnræðisreglu gæti verið að ræða. Það er reynt að bregðast við því en ég tel hins vegar að svo sé í raun ekki, að ekki hafi verið brugðist nægilega vel við því þar sem forsætisnefnd hefur eftir sem áður ein með málið að gera.

Ég ætla í lokin að benda á það, og taka undir með þeim sem á það hafa bent, að æskilegt væri að þingmenn hefðu aðgang að fjarfundabúnaði og öðrum slíkum hlutum, sérstaklega þingmenn dreifbýliskjördæmanna. En það er nú einu sinni þannig að mikill meiri hluti kjósenda, eða um 75% kjósenda, býr í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Það er ekki erfiðara fyrir þá kjósendur að hafa samskipti við þingmenn sína en kjósendur í Suðvesturkjördæmi eða í Reykjavíkurkjördæmunum. Tæp 10% kjósenda búa á Eyjafjarðarsvæðinu. En þegar maður hugsar út í þessar sérstöku ákvarðanir um aðstoðarmennina veltir maður því fyrir sér hvað þeim sé ætlað að leysa. Hvert á hlutverk þeirra að vera? Hvað eiga þeir að gera? Það hefur ekkert komið fram. Engin skilgreining liggur fyrir á störfum þeirra. Æskilegast hefði verið að við jafnvandaða og mikilvæga lagasetningu og hér er um að ræða hefði verið byrjað á því að skilgreina það hlutverk áður en lengra var haldið.