135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:55]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að spyrja. Tveir af þeim sem mynda meiri hlutann hafa komið inn á þau sjónarmið sem ég spurði um, annars vegar hv. þm. Ellert B. Schram og hins vegar hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Þegar þeirra sjónarmið koma fram og maður skoðar það sem þau höfðu fram að færa ber að hafa í huga að án þeirra stuðnings hefði ekki orðið til sá meiri hluti sem myndaðist í kringum málið.

Ég gat ómögulega skilið ummæli hv. formanns allsherjarnefndar öðruvísi en svo að hann tæki undir með hv. þm. Ellert B. Schram um að ætlunin væri að útvíkka þetta kerfi þannig að það yrði almenn heimild um að aðstoðarmenn yrðu ráðnir fyrir alla þingmenn. Ég gat ekki skilið orð hans öðruvísi og að hann teldi að þannig væri málið hugsað og þannig yrði það í framtíðinni. Spurningin er bara um framtíðina: Hve langur tími telur hv. þingmaður að líði þangað til slíkt kerfi kemst á?