135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:56]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki frekar en hv. þm. Jón Magnússon sagt til um framtíðina. Það er hins vegar ljóst að niðurstaða meiri hluta allsherjarnefndar byggist á því að vilji er til þess af hálfu meiri hlutans að aðstoð við einstaka þingmenn verði aukin. Litið er á það sem hér er gert sem fyrstu skrefin í þá átt. Það er alveg klárt að þörf þykir á að aðstoða einstaka þingmenn.

Hitt er annað mál að það kann að vera, þá tala ég ekki fyrir hönd nefndarinnar heldur sjálfs mín, hægt að útfæra þetta með mismunandi hætti. Allsherjarnefnd fór ekki í slíka útfærslu heldur vísar hún því verkefni yfir á forsætisnefnd, svo það liggi fyrir.

Ég hef gert grein fyrir niðurstöðu allsherjarnefndar, sem birtist í nefndarálitinu. Hún er alveg ótvíræð. Meiri hlutinn telur rétt að útvíkka þá aðstoð við þingmenn sem boðuð hefur verið og við m.a. séð í reglum sem forsætisnefnd hefur komið sér saman um. Þau skref sem þar er verið að stíga lítum við á sem fyrstu skrefin og við teljum rétt að stíga þau áfram. Ég held að menn þurfi ekkert að velkjast í vafa um afstöðu þeirra sem að meiri hlutanum standa í þeim efnum. Hins vegar verð ég að taka það fram að það var ekki verkefni allsherjarnefndar í þessari lotu að taka afstöðu til útfærslunnar. Frumvarpstextinn sem við tókum afstöðu til fól fyrst og fremst í sér heimildir en ekki endanlega niðurstöðu eða útfærslu.