135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[18:01]
Hlusta

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í lok umræðunnar þakka fyrir ágæta umfjöllun um þetta frumvarp og nota jafnframt tækifærið til þess að þakka hv. allsherjarnefnd fyrir ágæta umfjöllun og vinnu í nefndinni. Ég tel að hún hafi verið mikilvæg vegna þess að hér eru gerðar tilteknar breytingar sem mér finnst vera til bóta.

Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað vil ég fara nokkrum orðum um frumvarpið og þær breytingar sem verið er að gera. Þær snúa að svokölluðum aðstoðarmönnum þingmanna og fleira sem tengist því.

Ég held að því verði varla á móti mælt að menn líta svo á að vinnustaður þingmannsins sé ekki bara í þessum sal eða einungis hér á alþingisreitnum. Vinnustaður þingmannanna eru kjördæmin og síðan það svæði sem við vinnum á dagsdaglega innan húss í þinghúsinu og öllum þeim vistarverum sem á vegum þingsins eru.

Á vinnumarkaðnum er sérstaða þeirra sem þurfa að vinna fjarri heimili eða eru sendir starfs síns vegna um langan veg, alls staðar viðurkennd. Kjarasamningar fjalla um þetta og fyrirtæki átta sig á því að þau verða að skaffa starfsmönnum sínum starfsaðstöðu fjarri meginvinnustöð fyrirtækisins. Tökum dæmi af verktakafyrirtæki sem sendir menn sína til Grænlands. Að sjálfsögðu tekur fyrirtækið þátt í kostnaði og tekur tillit til aðstæðna þeirra með margvíslegum hætti.

Með sama hætti má segja að með þeim breytingum sem við stöndum hér að er verið að viðurkenna þá sérstöðu sem öllum er ljós. Ég lít nú svo á að það séu frekar rökfimiæfingar sem fara hér fram þegar verið er að tala um að með þessu sé brotið á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar fremur en að mönnum sé mikil alvara með því. Allir viðurkenna að um er að ræða mikla sérstöðu hjá þeim sem þurfa að vinna annars vegar hér á alþingisreitnum og hins vegar út um víðan völl kjördæmanna.

Um leið og við erum að huga að þessum breytingum sem eru tímabærar og verið er að festa í lög, tel ég að skapa þurfi umgjörð og aðstæður fyrir þingmenn almennt til þess að geta unnið sem best að verkefnum sínum. Þess vegna er ég alveg sammála því sem fram kemur í nefndaráliti hv. allsherjarnefndar að við þurfum að stíga næstu skref sem eru fólgin í því að bæta um betur fyrir alla þingmenn.

Það verður að greina algjörlega á milli þess sem snýst um að skapa þingmönnum góða starfsaðstöðu hér á vettvangi og svo þess sem við erum að gera með þessari lagasetningu. Það er að koma í veg fyrir þennan mikla mismun sem þingmenn Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæma búa við samanborið við aðra þingmenn.

Ég er mjög ánægður með þær viðtökur og umfjöllun sem þessar breytingar hafa fengið í þinginu og ég þakka hv. þingmönnum fyrir það. Það var satt að segja kominn tími til að við lykjum því sem byrjað var á í tengslum við breytingar á kjördæmaskipuninni.

Það eru vissulega ríkar málefnalegar ástæður fyrir þessum breytingum og ég vísa til þess sem segir í greinargerð með frumvarpinu, framsöguræðu minni hér í upphafi og ágætum ræðum annarra þingmanna sem hér hafa talað fyrir þessu máli. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara yfir það frekar.

Hins vegar vil ég minna á það, eins og reyndar hefur komið fram hér í þessari umræðu, að stjórnmálaflokkarnir fengu tiltekna fjármuni í kjölfar kjördæmabreytingarinnar til þess að styrkja stöðu og starf stjórnmálaflokkanna. Það var m.a. ætlað til þess að auðvelda skipulag starfsins og vinnuna á vettvangi flokkanna í öllum kjördæmum. Ég þekki svo vel til hvað varðar starfsemina hjá mínum flokki í þessum þremur kjördæmum sem er nú aðallega rætt um. Þá voru fjármunir settir til hliðar til þess að starfsmenn á vegum kjördæmaráðanna gætu unnið tiltekinn hluta, að minnsta kosti hluta úr ári eða tiltekinn hluta af kjörtímabilinu. Að því leyti var til komið til móts við flokkana.

Fram kom m.a. hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að hann telji að það eigi fremur að láta þá fjármuni sem við gerum hér ráð fyrir að fari til aðstoðarmanna þingmanna, ganga beint til flokkanna. Það er sjónarmið út af fyrir sig en það er sjónarmið þeirra sem vilja miðstýra þessu og ráða því á vettvangi flokkanna sjálfra til hvaða verkefna þessir fjármunir ganga. Meiri hlutinn og þeir sem fluttu þetta frumvarp upphaflega eru á öðru máli. Þeir telja að fara eigi þá leið sem hér er gert ráð fyrir, annars vegar að formenn stjórnarandstöðuflokkanna — það má ekki gleyma því að við tölum um að þeir fái aðstoðarmenn — og svo hins vegar að aðstoðarmenn einstakra þingmanna í tilteknum kjördæmum fái þessa aðstöðu.

Hæstv. forseti. Ég held að ekki sé ástæða til þess að fara frekar í þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég vil bara undirstrika að ég tek undir þau sjónarmið að í næsta áfanga eigum við að vinna að því að allir þingmenn fái betri aðstöðu. Fyrsta skrefið hvað það varðar er það sem við erum að gera núna, sérstaklega að styrkja nefndasviðið. Ég tek undir það sem fram kom hjá nokkrum hv. þingmönnum að við ættum að vinna að því. Verið er að gera það og það er partur af því samkomulagi sem gert var á milli flokkanna sem að þessum breytingum standa að svo verði. Þar til viðbótar tel ég að sérfræðiaðstoð við þingmenn þurfi að aukast. Ég er sannfærður um að mikill vilji er til þess í forsætisnefnd þingsins að leggja fram tillögur um að aðstaða þingmanna verði bætt enn frekar.

Með þessum orðum lýk ég máli mínu, hæstv. forseti, en vænti þess að þetta mál verði nú afgreitt þannig að hægt verði að fara að vinna að þessu. Ég vil bara minna á að rekið hefur verið á eftir forsætisnefndinni að koma þessu í framkvæmd þannig að hægt sé að fara að ráða aðstoðarmenn. Það var mjög ánægjulegt að fá þá áminningu. Hv. þingmenn eru óþreyjufullir að geta nýtt sér þær mikilvægu breytingar sem þessi löggjöf felur í sér og sem nú stefnir í að verði að veruleika.