135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[18:20]
Hlusta

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst, hvað varðar útgáfu á reglum um starf þessara aðstoðarmanna, var gert ráð fyrir að búið yrði að afgreiða það frumvarp og gera að lögum sem hér er til meðferðar 1. mars. Þá var gert ráð fyrir að reglurnar yrðu birtar og það er háð því. Fjallað hefur verið um þessar reglur í forsætisnefnd og þær samþykktar þar. Ég geri ráð fyrir því að það sé nokkuð greiður aðgangur fyrir hv. þingmenn að fá þær út af fyrir sig. En þær verða formlega birtar þegar lögin hafa verið samþykkt.

Í annan stað er spurningin um það hvers vegna aðstoðarmennirnir njóti ekki þess eða þurfi að fara eftir reglum um að vera opinberir starfsmenn. Út af fyrir sig eru þeir opinberir starfsmenn í þeim skilningi að ríkissjóður greiðir launin og hefur af þeim eðlilegan kostnað eins og á við um starfsmenn almennt. Hins vegar er það sérstaklega tekið út úr að þeir njóta ekki þeirra kjara varðandi uppsagnarrétt og annað því líkt. Við vitum að þetta er skammtímaráðning og við vildum ekki sitja inni með aðstoðarmenn sem hefðu sömu réttindi hvað varðar uppsagnarákvæði og annað sem opinberir starfsmenn hafa. Hitt skiptir líka máli að það þurfi ekki að auglýsa sérstaklega eftir starfsmönnum í þessar stöður. Það skiptir auðvitað öllu máli að viðkomandi þingmaður ráði hver er settur í verkefnið.