135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[18:22]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki alveg viss um að ég sé dús við skýringu hv. þingmanns varðandi þetta. Við þekkjum að aðstoðarmenn ráðherra eru, eftir því sem ég best veit, skilgreindir sem opinberir starfsmenn með ákveðnum undanþágum frá auglýsingaskilyrðum og uppsagnaskilyrðum. Ég hefði talið eðlilegt að það sama gilti um þá aðstoðarmenn sem hér er fjallað um.

Síðan vil ég leyfa mér að setja fram spurningu sem kviknaði þegar ég var að hlusta á ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar úr því að hann setti ekki fram þá spurningu sjálfur í andsvörum við hv. þingmann. Það er spurningin um flokka sem kjósa að starfa án þess að hafa formenn. Hvað ætti sá stjórnmálaflokkur að gera sem starfaði eins og Kvennalistinn starfaði þegar þessar reglur verða samþykktar? Flokkur sem kýs að hafa engan formann, á hann að mati 1. flutningsmanns þessa máls ekki að fá aðstoðarmann fyrir þingflokk sinn eða hvað? Hvernig ætti slík ráðning að flokkast? Mér finnst þetta álitamál sem þarf að greiða úr við þessa umræðu.