135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

flutningur á útgáfu starfsleyfa til landlæknis.

351. mál
[18:28]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það má segja að við yfirferð málsins hafi heilbrigðisnefnd yfirsést sú tillaga að þetta frumvarp tæki gildi 1. mars. Málið hefur verið nokkurn tíma í vinnslu í vetur og eðlilegt að færa dagsetninguna til 1. apríl þar sem 1. mars er liðinn. Hugsanlega tengist það því að stjórnsýslulega er þetta ekki mikil framkvæmd en þó verður að undirbúa flutninginn og bæði útbúa tölvukerfi og hafa þann mannafla sem þarf á að halda til að fara yfir umsóknir og afgreiða starfsleyfin, sem áður var gert hjá heilbrigðisráðuneytinu.

Ég bendi á, hæstv. forseti, að í umsögn fjármálaráðuneytisins var lagt til að um 7,5 millj. kr. færðust frá heilbrigðisráðuneytinu yfir til landlæknisembættisins til að sjá um útgáfu starfsleyfanna. En landlæknisembættið telur að þetta sé of lág upphæð þar sem umfang umsókna fari vaxandi og við blasi nokkuð flókin mynd af því atvinnusvæði sem við búum innan í dag á Evrópska efnahagssvæðinu. Með auknum áhuga á umsóknum um starfsleyfi hér á landi megi búast við meiri vinnu. Ég vil, hæstv. forseti, benda á það hér við 3. umr. að fara þarf vel yfir mat á kostnaði vegna þessa flutnings með tilliti til þess hvernig þessi vinna þróast og taka þá tillit til þess við afgreiðslu fjáraukalaga og fjárlaga á næsta ári og næstu árum ef umfangið eykst til muna.

Hæstv. forseti. Ég vil líka nefna að samhliða þessu er unnið að lögum um heilbrigðisstéttir. Unnið að því að koma einum lögum yfir allar heilbrigðisstéttir. Í dag gilda sérlög um þó nokkrar stéttir og þar fyrir utan vinna heilbrigðisstarfsmenn eða starfsfólk í svokölluðum óhefðbundnum lækningum eða á jaðarsvæðum heilbrigðisþjónustunnar. Ég tel að við yfirferðina eigi að búa til nýjan og einfaldari lagaramma um heilbrigðisstéttir og skoða það vel hvort fleiri stéttir eigi að falla undir hin nýju lög og vísa þá til menntunar og gráðu. Ég get nefnt nálarstungulækna og grasalækna, eins og við höfum kallað þá, sem hafa langt nám að baki. Ég vil nota tækifærið til að hvetja til að í þeirri vinnu verði horft út fyrir þann ramma sem við búum við í dag og horft til fleiri starfsstétta.