135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

störf þingsins.

[13:33]
Hlusta

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þann 2. nóvember sl. talaði ég fyrir þingmáli nr. 155, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Frumvarpið er um að lífeyriskjör þessa fólks verði færð til sama vegar og lífeyriskjör starfsmanna ríkisins. Ég er gjarnan spurð um framgang frumvarpsins og hef svo sem engu getað svarað öðru en því að málinu hafi verið, eins og formið gerir ráð fyrir, vísað til allsherjarnefndar. Mig langar því að biðja hv. þm. Birgi Ármannsson, formann allsherjarnefndar, að leysa úr þessum vandræðum mínum og spyrja hann um framgang frumvarpsins í nefndinni sem hann stýrir. Mér þætti t.d. fróðlegt að vita hve oft frumvarpið hafi verið rætt í nefndinni, hve mörgum hafi verið sent það til umsagnar, hvort umsagnir hafi borist og í hvaða anda þær eru. Einnig er forvitnilegt að vita hvort hugmyndir hafi komið fram í nefndinni um einhverjar breytingar á frumvarpinu.

Því miður eru blikur á lofti í efnahagslífi þjóðarinnar. Hætta er á að fleiri þurfi að herða sultarólina en þeir sem helst verða fyrir erfiðri en að ég tel réttri ákvörðun hæstv. sjávarútvegsráðherra síðastliðið sumar um minnkun þorskkvóta. Sumir bankamenn hafa lækkað launin sín þó að flestum okkar finnist þau enn nokkuð há. Ég tel að hv. þingmenn hefðu átt fyrir löngu að vera búnir að breyta hinum alræmdu eftirlaunalögum því að álit þjóðarinnar í þeim efnum fer væntanlega ekki fram hjá þeim. Með því að færa lífeyriskjör sín til þess sem gerist meðal ríkisstarfsmanna geta ráðamenn nú á táknrænan hátt sýnt fólkinu í landinu að við erum öll í sama bátnum og það er gott að vita af því þegar versnar í sjóinn. Ég hlakka því til að heyra svör hv. formanns allsherjarnefndar um framgang málsins.