135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

störf þingsins.

[13:38]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að taka undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur og fagna því frumkvæði sem hún hefur tekið með því að stíga afdráttarlaus skref í þá átt að afnuminn verði sérréttindabálkurinn sem kveður á um sérkjör alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna í lífeyrismálum. Í landinu eru skýr lög og reglur um hvernig haga skuli lífeyrisréttindum þeirra sem starfa hjá ríkinu. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er alþingismönnum opinn. Ég spyr: Hvað er það sem dvelur orminn langa? Hvers vegna er þessu máli ekki hraðað í gegnum þingið? Svo var að skilja á hv. formanni allsherjarnefndar að hér væri á ferðinni geysilega flókið mál. Þetta er mjög einfalt mál. Alþingismenn þekkja málið í þaula. Spurningin er: Vilja menn að alþingismenn og ráðherrar og æðstu embættismenn búi við sérkjör, sérforréttindi í lífeyrismálum? Eða eiga þeir að taka lífeyrisréttindi eins og aðrir sem fá laun frá ríkinu? Ég er því fylgjandi og ég styð það mjög eindregið að þessu máli verði hraðað í gegnum þingið. Þetta er mjög einfalt mál.