135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

störf þingsins.

[13:40]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir mælti fyrir frumvarpi sínu sem hér er til umræðu þá lýsti ég yfir stuðningi við það og talaði um að ég mundi beita því sem ég gæti gert til að flýta fyrir og hraða framgangi þess, því að ég tek undir með bæði henni og hv. þm. Ögmundi Jónassyni að það gengur ekki að alþingismenn séu að skammta sér og öðrum háembættismönnum ríkisins sérkjör hvað varðar eftirlaun. Það gengur ekki. Við eigum að sjálfsögðu að sitja við sama borð og aðrir landsmenn. Það er grundvallaratriði. Við eigum ekki að vera sjálftökulið hvorki í þessu efni né að öðru leyti.

Þá komum við einmitt líka að spurningunni um það með hvaða hætti og hvernig störfum þingsins er háttað. Hv. formaður allsherjarnefndar, Birgir Ármannsson, gerði góða grein fyrir því með hvaða hætti og hvernig málið stæði en það er tvímælalaust vandamál í störfum Alþingis að stjórnarfrumvörp hafa algeran forgang. Ég bíð t.d. eftir því að mæla fyrir tveimur málum sem hafa ekki komist á dagskrá enn þá á meðan væntanlega verða afgreidd nokkur lagafrumvörp sem voru flutt eftir að ég lagði fram þau mál sem ég á enn eftir að mæla fyrir. Því miður er það þannig — og við förum væntanlega að greiða atkvæði innan skamms um frumvarp um aðstoðarmenn þingmanna sem er á hraðferð í gegnum þingið — að það vantar betra skipulag á það með hvaða hætti mál eru afgreidd. Ég sagði við þingskapaumræðuna í vetur að ég vildi að við gerðum líka breytingar á verklagi nefnda Alþingis, m.a. að mál væru þar skrásett, tölusett og tekin í réttri röð en stjórnarfrumvörp hefðu þar ekki forgang og ekkert frumvarp nema samkvæmt afbrigðum.