135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

störf þingsins.

[13:42]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þegar mælt var fyrir þessu máli í upphafi kom hv. þm. Valgerður Sverrisdóttur því á framfæri að málið væri í anda stefnu Framsóknarflokksins sem ályktaði um það að jafna ætti þessi réttindi. Það er hins vegar alveg rétt sem hefur komið fram að tími þingnefnda fer í að vinna í ráðherrafrumvörpum. Þannig er það og þannig er það í allsherjarnefnd. Það er þó ein smáskíma, það er smáljós í myrkrinu í þessu sambandi sem við urðum vitni að um daginn þegar við afgreiddum mál frá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur um verndun Hólavallakirkjugarðs. Vonandi eru þessi vinnubrögð að breytast þannig að við fáum þingmannamál í gegn. En allsherjarnefnd hefur alla vega hingað til verið að vinna í ráðherrafrumvörpum.

Ég vil velta þeirri spurningu upp hvort það sé ekki spennandi að kalla eftir svörum frá hæstv. ráðherrum vegna þess að málið sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir flutti og er núna fast í allsherjarnefnd er í anda stjórnarsáttmálans. Það á að taka á þessum málum samkvæmt stjórnarsáttmálanum. Hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem er formaður Samfylkingarinnar, sagði þegar málið var hér til umræðu að hún ítrekaði að þetta væri mikilvægt mál og með málinu væri reynt að vinda ofan af ósanngjarnri og óréttlátri löggjöf sem samþykkt var árið 2003 með atbeina allra flokka. Við skulum ekki gleyma því, sagði hæstv. utanríkisráðherra. Það er þess vegna mjög spennandi að spyrja að því hvort ríkisstjórnin sé að beita sér fyrir einhverju samkomulagi. Það reyndi Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, að gera og nú er komið að því að sjá hvort Samfylkingin nær árangri með Sjálfstæðisflokknum í því að ná samkomulagi um að breyta þessu kerfi. Framsóknarflokkurinn vill gera það og styður því þá hugsun sem er í frumvarpi hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur.