135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

störf þingsins.

[13:49]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að við í umhverfisnefnd afgreiddum út fyrsta þingmannamálið þegar í síðasta mánuði. Þó að það hafi verið frá stjórnarþingmanni komið þá vona ég að við eigum eftir að afgreiða mál frá þingmönnum bæði í stjórn og stjórnarandstöðu hér í salnum. Ég held að það sé í góðu og eðlilegu samræmi við þá áherslu sem forseti Alþingis og forusta þingsins hefur lagt á, þ.e. aukið sjálfstæði þingsins og nefnda þess.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir mælti hér fyrir tillögu sinni í október. Nú er kominn mars. Mælt var fyrir eftirlaunalögum alþingismanna og ráðherra í desember og þau voru afgreidd í desember. Það sýnir svo að ekki verður um villst að þetta mál hefur ekki sömu áherslu í umfjöllun þingsins og eftirlaunafrumvarpið á sínum tíma.

Við sem greiddum atkvæði gegn eftirlaunafrumvarpinu hljótum að leggja áherslu á að nefndin taki málið til umfjöllunar m.a. vegna þess að hér er ekki um einfalt þingmannamál að ræða einvörðungu. Í stjórnarsáttmálanum er skýrt kveðið á um að endurskoða skuli eftirlaunakjör alþingismanna og ráðherra með það að markmiði að samræma þau meira lífeyriskjörum almennings.

Hvort það er einvörðungu samræming við lífeyriskjör ríkisstarfsmanna eða hvort þingið hefur forustu um að lífeyriskjör almennt í landinu verði í ríkari mæli samræmd er ekki eitthvað sem við þurfum að taka afstöðu til hér en ég held að það hljóti að þurfa að koma til skoðunar hjá nefndinni. Það er ekki einvörðungu mismunandi réttur alþingismanna og ríkisstarfsmanna heldur er líka mjög ójafn réttur ríkisstarfsmanna og opinberra starfsmanna annars vegar og starfsfólks á almennum vinnumarkaði hins vegar. Ég minni á (Forseti hringir.) þingsályktunartillögu okkar í Samfylkingunni undir forustu Margrétar Frímannsdóttur á síðasta kjörtímabili um að þessi heildarendurskoðun þurfi að fara fram.