135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

störf þingsins.

[13:58]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Mér þykir leitt að inn í þingið skuli koma deilur um hvort við uppfyllum lög varðandi málefni fatlaðra eður ei. Ég var í svæðisráði um málefni fatlaðra í mörg ár hér áður fyrr. Það er nú einu sinni þannig að lögin sjálf hafa hingað til verið þannig að of lítill hluti af þeim hefur verið framkvæmdur.

Hafi einhver reynt að taka á því og reynt að breyta því þá er það núverandi hæstv. félagsmálaráðherra og því er mjög leitt ef hér er verið að gefa í skyn að borin séu ósannindi fram varðandi málefnið. Ég mun auðvitað sem formaður félags- og tryggingamálanefndar beita mér fyrir því að fá hér réttar upplýsingar.

Við bættum verulega í málaflokkinn um málefni fatlaðra í gegnum fjárlög á þessu ári, því miður ekki inn á allar svæðisskrifstofur þótt alls staðar hafi verið mætt verðhækkunum. Málefnið er í höndum svæðisbundinna skrifstofa eða eftir atvikum þess til bærra aðila eins og er á Akureyri og Norðurlandi vestra og víðar. Það er þá okkar í félagsmálanefnd að leita eftir upplýsingum í samráði við ráðuneytið hvernig málum er háttað og fá þá rétt svör upp á borðið. Ég treysti mér ekki til að blanda mér í þessi einstöku mál og harma það mjög ef hér er verið að skerða þjónustu með einhverjum hætti umfram það sem lög heimila.

Markmið okkar í þessari ríkisstjórn hefur verið að sinna þessum málaflokki vel og fyrir því mun ég beita mér áfram eins og hingað til og leita eftir svörum. Ég treysti á að við fáum þau sem allra fyrst.