135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

störf þingsins.

[14:02]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það er rétt að tvisvar í viku er gert ráð fyrir óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra. En það er ekki alltaf þannig að allir ráðherrar séu viðstaddir alla þá tíma. Það sem ég vakti máls á hér í upphafi var að ég hefði tekið upp tiltekið mál við hæstv. félagsmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum í gær. Mér fannst vegna hádegisfréttanna í dag tilefni til að fylgja því eftir. Þær gáfu til kynna að svör ráðherra hefðu ekki verið rétt. Ég sagði að ég vænti þess að ráðherrann hefði gert það óafvitandi, hún hefði ekki verið með réttar upplýsingar undir höndum. Ég hef ekki verið með neinar ásakanir í garð hæstv. félagsmálaráðherra hvað þetta snertir.

Mér finnst hins vegar mikilvægt að þingið fái réttar upplýsingar. Komi í ljós að þær upplýsingar eða þau svör sem ráðherrar gefa séu ekki alls kostar rétt þarf að koma fram leiðrétting. Ég er ekki endilega að kalla eftir því að hæstv. ráðherra verði nákvæmlega á þessum fundi eða á þessum mínútum. En mér finnst mikilvægt að vekja athygli á þessu. Ég býst við að ráðherrann muni koma fram í kjölfarið og annaðhvort leiðrétta það sem hæstv. ráðherra sagði við þingið í gær eða greiða úr málinu, sem er kannski aðalatriðið í þessu efni, að úr því yrði greitt.

Í gær kom fram hjá hæstv. ráðherra að þetta kostaði um 10 millj. kr. og hún sagði sjálf að þetta væri ekki stórmál. Mér finnst því mikilvægt að það verði leyst gagnvart þeim fjölskyldum sem í hlut eiga. Þær eiga ekki að líða fyrir fortíðarvanda Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í gamla Reykjaneskjördæmi. Það er dálítið sérkennilegt að þessi svæðisskrifstofa eigi við fortíðarvanda að glíma vegna þess að hún hefur oftar en einu sinni fengið viðurkenningu frá fjármálaráðuneytinu fyrir góða fjármálastjórn og fyrir að halda vel um peninga. Það kemur sérstaklega á óvart að þessi svæðisskrifstofa skuli eiga hlut að slíku máli.

Sem sagt, herra forseti, mér fannst mikilvægt að vekja máls á því (Forseti hringir.) að svörin í gær virðast ekki standast. Mér finnst mikilvægt að úr því verði greitt.