135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

staða efnahags-, atvinnu- og kjaramála.

[14:14]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Hv. alþingismenn og hæstv. ráðherrar. Ég fagna því að það er orðin niðurstaða að Alþingi Íslendinga telur sig hafa tíma til þess, að minni ósk, að ræða stöðu efnahags-, atvinnu- og kjaramála í hátt í tvo klukkutíma. Ég leyfi mér að segja: Þó fyrr hefði verið og þó lengur væri.

Í greinargerð sinni til ríkisstjórnar, um verðbólgu umfram þolmörk, þann 18. febrúar 2005, sagði Seðlabankinn, með leyfi forseta:

„Á næstu árum mun reyna mjög á hina nýju skipan peningamála. Framkvæmdir við virkjanir og álbræðslur, sem til samans slaga að umfangi upp í þriðjung landsframleiðslu eins árs, fela í sér meira umrót í þjóðarbúskapnum en nokkurt annað land sem hagar peningastefnunni með svipuðum hætti hefur þurft að glíma við.“

Það er nefnilega það. Meira umrót í þjóðarbúskapnum en nokkurt annað land, sem hagar peningastefnunni með svipuðum hætti, hefur þurft að glíma við, sagði Seðlabankinn á öndverðu ári 2005. Þá lá fyrir hvert umfang hinna samanþjöppuðu og gríðarmiklu stóriðjufjárfestinga, í formi byggingar Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði, í formi stækkunar á Grundartanga og virkjana á suðvesturhorni landsins, yrði. Verðbólga var þá þegar komin umfram þolmörk og fór reyndar upp fyrir viðmiðunarmörkin, 2,5%, á miðju ári 2004 og hefur verið ofan þeirra marka síðan. En það var ekki allt búið enn. Stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, höfðu báðir gengið til kosninga 2003 með stórkarlalegum loforðum og gylliboðum, annars vegar loforðum um skattalækkanir og fór þar Sjálfstæðisflokkurinn fyrir og hins vegar var Framsóknarflokkurinn með sín frægu loforð um að bæta úr ófremdarástandi í húsnæðismálum sem flokkurinn hafði þó sjálfur farið með í ríkisstjórn í átta ár þegar þar var komið sögu. Ofan í þá þenslu og það mikla umrót í þjóðarbúskapnum, sem Seðlabankinn og margir fleiri vöruðu við að hlyti að leiða af hinum gríðarmiklu samanþjöppuðu stóriðjuframkvæmdum, hófst skattalækkunarferli sem var lögtekið fyrir fram og stóð yfir allt síðasta kjörtímabil. Skattar voru lækkaðir þannig að það gagnaðist fyrst og fremst hátekju- og stóreignafólki um upphæðir sem nema að núvirði af stærðargráðunni 40–50 milljörðum kr. Ofan í kaupið var svo lánshlutfall til íbúðalána hækkað um 90% á fasteignamarkaði sem þegar var að spennast upp. Sem sagt, stjórnvöld dældu olíu á verðbólgubálið af mikilli eljusemi allt síðasta kjörtímabil og skeyttu engu varnaðarorðum.

Inn í þetta ástand skelltu svo bankarnir sér með sína mislukkuðu og ábyrgðarlausu innkomu á fasteignalánamarkaðinn eða atlögu að Íbúðalánasjóði, hvort sem heldur var megintilgangurinn, og buðu lán út á veð í fasteignum án nokkurs þaks eða hámarksupphæðar. Og við uppskárum eins og við sáðum. Verðbólga fór upp, viðskiptahalli jókst og sló öll met, varð árið 2006 nálægt 26% af vergri landsframleiðslu, litlir 300 milljarðar kr. Við áttum ekki fyrir fjórðu hverri krónu sem við eyddum eða fjárfestum fyrir. Í þrjá mánuði af 12 lifði þjóðarbúið á erlendum lántökum það árið. Aðeins þriðjungur þessa gífurlega viðskiptahalla var vegna stóriðjuframkvæmdanna. Meiri hluti hinnar innlendu lántöku var vegna neyslu, ekki varanlegrar fjárfestingar því miður. Eini aðilinn sem reyndi sitt til að halda aftur af þenslunni, vaxandi verðbólgu og viðskiptahalla, var Seðlabankinn sem keyrði upp stýrivextina sem urðu að lokum hinir hæstu meðal vestrænna ríkja og eru svo enn.

Það er óhjákvæmilegt að rekja þetta hér til að rifja upp að sá vandi sem við stöndum frammi fyrir í þjóðarbúskapnum er að yfirgnæfandi meiri hluta til heimatilbúinn. Auðvitað bæta ekki úr skák hækkanir á olíu, innfluttum matvælum og alþjóðlegur fjármálaóróleiki nú en við erum af eigin völdum sérlega illa undir það búin að takast á við slíkt. Stjórnvöld lögðu framan af mest af mörkum til að efna til veislu, óráðsíu- og stjórnleysisveislu, sem gekk undir nafninu Góðærið, og margir slógust í för. Menn slepptu fram af sér beislinu. Flottræfilsháttur, bruðl og græðgi komst beinlínis í tísku. Enginn var maður með mönnum nema ferðast í einkaþotu. Útrásarvíkingar voru mærðir og hlaðnir lofi. Þeir rændu jafnvel gamla sæmdarheitinu af handboltalandsliðinu og urðu drengirnir okkar. Íslendingar ætluðu að sigra heiminn með leiftursókn og létu hafa það eftir sér í Danmörku að þarlendir gætu ýmislegt af þeim lært í bisness.

Hvar var gagnrýnin fjölmiðlun á þessum tíma? Hvar voru hugsandi fræðimenn og akademikerar? Hvar voru heiðarlegir gamaldags kapítalistar og íhaldsmenn? Er enginn sem skammast sín núna fyrir að hafa tekið þátt í ruglinu og fagnað samsærinu um góðærið mikla?

En á hinn bóginn. Auðvitað þurfti að kjósa vorið 2007. Og hver er nú staðan? Verðbólgan virðist föst á bilinu 6–8%. Seðlabankinn metur horfur þannig að enn vanti forsendur til að hefja vaxtalækkunarferli. Bæði ytra sem innra ójafnvægi í þjóðarbúskapnum er verulegt. Viðskiptahalli er enn mikill og þar með áframhaldandi skuldasöfnun þjóðarbúsins út á við. Alvarlegust er þó hin þunga erlenda skuldabyrði. Hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins voru um 35% af vergri landsframleiðslu 1991. Þær fóru í 100%, sem sagt jöfnuðu landsframleiðsluna, um aldamótin 2000. En á síðustu fjórum árum, 2004–2007, hafa þær farið úr 100% í 210–220% af vergri landsframleiðslu. Ég minni á að hér tölum við um hreinar erlendar skuldir sem sagt skuldir að frátöldum eignum erlendis. Á valdatíma Sjálfstæðisflokksins hafa sem sagt erlendar skuldir þjóðarbúsins umfram erlendar eignir farið úr rúmum þriðjungi af landsframleiðslu 1991 í að vera vel yfir tvöföld landsframleiðsla um þessar mundir. Það er öll snilldin. Það eru afrekin þegar hægri menn, sem einir þykjast hafa vit á fjármálum, ráða öllu sem þeir vilja ráða í landinu, með þægum meðreiðarsveinum, í einn og hálfan áratug.

Þessarar þróunar sér ekki síst stað í gríðarlegri skuldasöfnun heimilanna. Skuldir heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafa á þessu sama tímabili, 1991–2007, farið úr 80% í 240–250% nú. Það tæki með öðrum orðum heimilin í landinu allar ráðstöfunartekjur sínar í 2,5 ár að borga upp skuldirnar þó að fólk byggi í tjaldi á meðan og lifði á loftinu. Þjóðhagslegur sparnaður hefur á valdatíma Sjálfstæðisflokksins, með krötum, svo með Framsókn og svo aftur með krötum, fallið úr 17–18% af landsframleiðslu niður fyrir 10%.

Á útmánuðum 2005 lagði þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í fyrsta sinn fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að tryggja eða endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Þar var gert ráð fyrir að horfið yrði frá frekari stóriðjuframkvæmdum, að Fjármálaeftirlitinu yrði gert að framkvæma vandað áhættumat í bankakerfinu, því yrði beint til Seðlabankans að íhuga öll möguleg úrræði, svo sem að auka bindiskyldu. Fallið yrði frá eða frestað því sem eftir var af lögfestum skattalækkunum og efnt til víðtæks þjóðarsáttarsamstarfs á vinnumarkaði. Þessu til viðbótar höfum við vinstri græn þráfaldlega lagt til á undanförnum missirum að staða Seðlabankans yrði styrkt og gjaldeyrisvaraforðinn aukinn. Við höfum til viðbótar flutt tillögur um þjóðhagslega arðsemisúttekt á frekari stóriðjufjárfestingum mjög í anda ábendinga Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD í síðustu þremur ársskýrslum sínum um Ísland. Skemmst er frá því að segja að bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn hafa reynst ófærar eða viljalausar til að takast á við vandann. Fyrrverandi ríkisstjórn ber með pólitískum ákvörðunum sínum, aðgerðaleysi og mistökum í hagstjórn verulega ábyrgð á því ástandi sem við stöndum nú frammi fyrir. Núverandi ríkisstjórn missti af dýrmætu tækifæri þegar hún tók við völdum í vor með ærinn þingmeirihluta til að senda sterk skilaboð út í efnahagslífið og samfélagið um að nú yrði tekið á vandanum. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur þvert á móti verið eitthvert allra daufgerðasta fyrirbæri sinnar tegundar. Einstakir liðsmenn reyna nú að vekja hana af dvala með blaðagreinum ef ekki vill betur til. Enn sem komið er virðist ríkisstjórnin föst í afneitunarhjólförum undangenginna ára og hefðbundnum leik að kenna bara einhverju öðru um. Því er haldið áfram.

Gegnum tíðina hafa það verið Seðlabankinn, stórmarkaðirnir, tryggingafélögin, olíufélögin, bankarnir og hinir og þessir en aldrei ríkisstjórnin og aldrei stóriðjustefnan sem við hefur verið að sakast. Og nú síðast er þetta orðinn ímyndarvandi, fáfróðir útlendingar sem eru að misskilja þetta allt saman og svo er auðvitað óvild Dana í okkar garð, ekki má gleyma henni. Eftir innihaldslausan fund ríkisstjórnarinnar með bönkunum þar sem mönnum var varla boðið upp á kaffi hvað þá tillögur þá dettur ráðamönnum helst í hug að fara í ímyndarherferð, ráða auglýsingastofu. Kannski megi nota bjórauglýsinguna „Ísland, best í heimi“. Áfengisauglýsingar eru þó a.m.k. leyfðar erlendis.

Eins og áður sagði, herra forseti, höfum við lagt fram fjölmargar tillögur og verðum hvorki sökuð um að hafa ekki lagt fram stefnu okkar og tillögur né að hafa ekki varað við. Eigi veldur sá er varar. Að síðustu tek ég sérstaklega undir ábendingar Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD sem segir enn á ný í sinni síðustu skýrslu um Ísland að engar frekari fjárfestingar í orkufrekum stórverkefnum, að meðtöldum þeim sem þegar eru í undirbúningi, ættu að eiga sér stað fyrr en farið hefur fram ítarlegt arðsemismat. Staðan er erfið og okkar vandi, að mestu leyti heimatilbúinn, er ærinn. Við getum að sjálfsögðu unnið okkur í gegnum hann og það munum við auðvitað gera en þá er líka rétt að fara að koma sér að því. Ég hef því að lokum lagt spurningar fyrir hæstv. forsætisráðherra sem ég sendi honum í tölvupósti í gær til undirbúnings umræðunni en þær lúta að því hvort ríkisstjórnin hyggist endurskoða samstarfsyfirlýsingu sína við Seðlabankann, styrkja stöðu Seðlabankans, hvort vænta megi endurskoðunar á mótvægisaðgerðum, hvort til standi að taka sértækt á vanda sjávarútvegsins, hvort til standi að taka á aðsteðjandi vanda landbúnaðarins. Síðast en ekki síst spyr ég: Hver er nákvæmlega staða mála í ríkisstjórn hvað varðar frestun frekari stóriðjuframkvæmda þar til viðunandi jafnvægi hefur náðst í þjóðarbúskapnum?