135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

staða efnahags-, atvinnu- og kjaramála.

[14:26]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Þetta var mikill reiðilestur. Skyldum við hafa heyrt þessa ræðu áður í sölum Alþingis? Ég hef setið hér í 21 ár, aðeins skemur en hv. þingmaður, og hann hefur flutt þennan reiðilestur með reglulegu millibili á öllu þessu tímabili. (Gripið fram í: Sennilega …) Hann hefur ekki dregið af sér á undanförnum árum þegar hann hefur fundið aðgerðum ríkisstjórnarinnar allt til foráttu, sérstaklega þegar kemur að efnahags- og skattamálum og aðgerðum til þess að auka kaupmátt eða greiða fyrir því að atvinnulífið geti starfað með eðlilegum hætti, t.d. með því að lækka skatta á því.

Þegar beðið var um þessa umræðu var ósamið á vinnumarkaðnum, enda er efni hennar efnahags-, atvinnu- og kjaramál. Ekki var vikið orði að kjaramálum í ræðu þingmannsins, enda er búið að semja á almenna vinnumarkaðnum og við höfum tekið umræðu um það á þinginu með hvaða hætti það var gert og hver atbeini hinnar „daufgerðu og værukæru“ ríkisstjórnar í því efni var. Þingmaðurinn minntist ekki orði á neitt af því og getur auðvitað ekki stunið því upp úr sér hér að hann sé kannski ánægður með það að samist hafi á vinnumarkaðnum og það til þriggja ára. (Gripið fram í.) Hann kvartaði undan því í umræðu hér um kjaramál um daginn að launin væru svo lág. Það er gagnrýni á aðila vinnumarkaðarins og það ber ekki vott um það að viðkomandi beri hagsmuni hins almenna launamanns fyrir brjósti hvernig þeim málflutningi var hagað. (SJS: Það væri nú nær að svara einhverju …)

Skuldir þjóðarbúsins urðu þingmanninum hér að umræðuefni. Það er engu líkara en hann geri sér ekki grein fyrir því að stærstu skuldir þjóðarbúsins eru skuldir fjármálastofnananna sem hafa fengið frelsi síðustu tíu ár eða svo til þess að athafna sig á hinum alþjóðlega fjármálamarkaði. Langstærsti hlutinn af þessu er til kominn vegna þess að þessi fyrirtæki hafa verið umsvifamikil í viðskiptum landa á milli, tekið lán, flutt þau hingað heim og endurlánað þau ýmist hér eða erlendis.

Ég vil rifja það upp, virðulegi forseti, sem segir í yfirlýsingu þeirri sem gefin var út í tilefni af samningum á vinnumarkaðnum fyrir fáum vikum síðan. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stöðugleiki í efnahagsmálum er meginmarkmið ríkisstjórnarinnar enda stuðlar hann að auknum hagvexti og velferð til langframa. Við núverandi aðstæður er afar mikilvægt að sköpuð séu skilyrði fyrir því að vaxtastig geti lækkað. Kjarasamningar til þriggja ára sem grundvallast á hóflegum kauphækkunum og verulegri hækkun lægstu launa stuðla í senn að auknum jöfnuði og jafnvægi í efnahagsmálum.“

Þetta eru markmiðin sem aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin hafa sameinast um. Ég ætla að leyfa mér að tala út frá þessum markmiðum en læt mér í léttu rúmi liggja hina sögulega túlkun hv. þingmanns og upphafsmanns þessarar umræðu um aðgerðir síðustu ríkisstjórnar eða annað sem löngu hefur verið ákveðið hér með meirihlutafylgi á Alþingi og fylgt eftir á undanförnum árum.

Ég tel að hinir nýju kjarasamningar dragi verulega úr óvissu á markaðnum og muni stuðla að auknum stöðugleika, minni verðbólgu, meira atvinnuöryggi og á endanum lægri vöxtum. Þetta eru tímamótasamningar sem tryggja kaupmátt mest hjá þeim sem lægst hafa launin. Aðkoma ríkisins að þessum samningum tryggir í senn lægri skatta og mikla hækkun barna- og vaxtabóta auk þess sem lækkun tekjuskatts fyrirtækja er áformuð eins og kunnugt er.

Það vita það allir, virðulegi forseti, að efnahagslíf okkar núna er að koma út úr miklu framkvæmdatímabili sem nú sér fyrir endann á austur á landi þegar framkvæmdum lýkur við Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði. Það var vitað og hefur verið vitað lengi að við þær aðstæður mundi hægjast um í efnahagslífi okkar og það er það sem er að gerast. Viðskiptahallinn minnkar hratt um þessar mundir, það er ekki lengur sama spennan á fasteignamarkaðnum, verðbólgan er að vísu of mikil, það er rétt hjá hv. þingmanni, en það er m.a. vegna lægra gengis og erlendra verðhækkana, svo sem á matvælum, hráefni, olíu o.fl. Almennt er því spáð að eftir þann kúf sem nú er fram undan að því er virðist í verðlagsmálum muni verðbólgan lækka á næstunni, en auðvitað er áfram óvissa á alþjóðamarkaði, alla vega næstu mánuðina, sem smitast hingað til okkar. OECD-skýrslan segir þessa sömu sögu en er þó jafnvel heldur jákvæðari hvað þetta atriði varðar.

Þær aðstæður hafa hins vegar skapast á Íslandi vegna atvika á alþjóðlegum fjármálamarkaði að hér hefur skapast skortur á lánsfé hvað varðar innlendu bankana. Sá vandi einskorðast ekki við Ísland eins og var um þetta leyti árs árið 2006. Nú er það svo að hlutabréf lækka um allan heim og fjárfestar virðast frekar vilja leggja fjármuni sína inn á trausta reikninga en að taka áhættu með hlutabréfakaupum og fjármálafyrirtæki hafa almennt lækkað meira en önnur fyrirtæki í verði vegna óvissu um lánsfjáröflun. Staðan er sú að svokallað skuldatryggingarálag, sem er fyrirbæri sem var ekki til fyrir tíu árum eða svo en hefur unnið sér sess á fjármálamörkuðum, hefur hækkað alls staðar en mest því miður á íslensku bönkunum. Fyrir þessu álagi eru engin sjáanleg efnahagsleg eða fjármálaleg rök. Enn þá fáránlegra er að svokallað skuldatryggingarálag á íslenska ríkinu, sem skuldar nánast ekki neitt, skuli nú orðið jafnhátt og raun ber vitni eða rúmlega 200 punktar sem kallaðir eru.

Nýleg skýrsla frá lánshæfismatsfyrirtækinu Moody's staðfestir hæstu lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins fyrst og fremst vegna sterkrar stöðu ríkissjóðs, bæði mikils afgangs á fjárlögum og lágra skulda. Enn fremur er vakin athygli á því í skýrslunni að langtímahorfur hér á landi séu mjög góðar vegna okkar öfluga lífeyrissjóðakerfis. Þar erum við í sérflokki samanborið við önnur lönd. Skýrsluhöfundar benda einnig á að fjárhagsstaða bankanna sé traust og að þeir hafi nægt lausafé. Í þriðja lægi bendir fyrirtækið á að íslensk stjórnvöld hafi alla burði til að takast á við alvarlega fjármálakreppu án þess að það leiði til lækkunar á lánshæfismatinu.

Þetta er staðan, virðulegi forseti, sem við erum að glíma við núna. Inn í hana spila auðvitað margir þættir en það verður ekki ofmetið hvað það er mikilvægt að óvissu á vinnumarkaði skuli nú hafa verið eytt og við getum einbeitt okkur að öðrum vandamálum sem við er að fást á þessu sviði. Þjóðhagsspáin, sem við leggjum til grundvallar í vinnu okkar, var endurskoðuð um miðjan janúar. Nú er spáð 1,5% hagvexti á þessu ári og 0,5% hagvexti á árinu 2009 en líklega hafa horfurnar versnað frá þessum tíma og líklegt að hagvöxtur verði að óbreyttu eitthvað minni, alla vega á þessu ári.

Í þessum þingsal hefur ríkisstjórnin verið gagnrýnd fyrir það að hafa aukið verklegar framkvæmdir á árinu 2008. Það hefur ítrekað komið fram hér gagnrýni á það að ríkisútgjöld vegna þessa séu að aukast á árinu. Samt er það svo að líka í þessum sal er sí og æ verið að krefjast meiri ríkisútgjalda í þágu einstakra framkvæmda eins og við þekkjum. En það sýnir sig að það var auðvitað skynsamleg ráðstöfun í þessu ljósi að leggja til hliðar fyrir árið í ár fjármuni til að skapa hér atvinnu með opinberum framkvæmdum eins og mun koma á daginn nú þegar farið er að harðna á dalnum, a.m.k. í sumum tegundum atvinnureksturs eins og í byggingariðnaði og öðru slíku. Þá mun það sýna sig að gott verður að geta gripið til þessara framkvæmda til að jafna metin.

Ég mun nú, virðulegi forseti, víkja örlítið að þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín en þó er auðvitað ekki hægt að svara þeim öllum af nákvæmni. Spurt er um Seðlabankann og peningamálastefnuna og hvort fyrirhugaðar séu viðræður milli ríkisstjórnarinnar og bankans um að breyta henni. Engar slíkar viðræður hafa farið fram og ekkert verið ákveðið um slíkt. Hins vegar varðandi gjaldeyrisvarasjóðinn þá er rétt að minna á að hann var aukinn fyrir þremur árum síðan og það var mjög vel heppnuð aðgerð og við höldum því auðvitað opnu að auka þennan varasjóð þegar aðstæður á mörkuðum eru þannig að það teljist heppilegt og auðvitað væri það mjög æskilegt.

Hvað varðar mótvægisaðgerðirnar þá er það til athugunar á vegum ríkisstjórnarinnar hvort rétt sé að bæta þar við eða gera hlutina að einhverju leyti öðruvísi en áður var áætlað en hafa verður í huga að mikið af þessum aðgerðum er ekki enn komið til framkvæmda.

Svo er spurt: Stendur til að taka sértækt á vanda sjávarútvegsins eða vanda landbúnaðarins? Mér er ekki alveg ljóst hvað þingmaðurinn er að fara þegar hann talar um sértækar aðgerðir á þessu sviði, hann útskýrir það kannski í síðari ræðu sinni.

Varðandi frestun stóriðjuframkvæmda þá hefur engin ákvörðun verið tekin um slíkt, þær ákvarðanir eru teknar úti á markaðnum núna eins og kunnugt er og atbeini ríkisstjórnarinnar og Alþingis að því mjög lítill. Við höfum því ekki tekið neinar ákvarðanir um það efni eins og sakir standa. Hins vegar tel ég ef miðað er við það hvað er að dragast mikið saman og hratt í þjóðarbúskapnum um þessar mundir að stórframkvæmdir af einhverju tagi væru mjög æskilegar til þess að halda hjólum atvinnulífsins gangandi.