135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

staða efnahags-, atvinnu- og kjaramála.

[14:38]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og tel hana mikilvæga í þinginu. Ég vil í upphafi segja að auðvitað er sterk staða skuldlauss ríkissjóðs og sterkir lífeyrissjóðir styrkur Íslands og Íslendinga, íslenska þjóðarbúið er mjög sterkt um þessar mundir og hefur verið síðustu árin. Hins vegar höfum við áhyggjur af viðskiptahalla og vaxandi skuldum Íslendinga yfir höfuð og það eru því, eins og við höfum sagt, mörg ský sem ógna okkur. Það er vandasamt fyrir hæstv. forsætisráðherra að keyra vagninn áfram, hann verður bæði að gera það á háum ljósum og lágum, hann verður að horfa til langs tíma, það er skammtímavandi og við þurfum að marka stefnu til langs tíma.

Ég fagna því auðvitað að kjarasamningar náðust á dögunum, þeir skapa ró á markaðnum og leggja línu um framtíðina. Það mun hafa áhrif en það reynir á hagkerfið, það er þanið og það eru margar viðsjár á lofti. Hlutabréfin hafa fallið gríðarlega þannig að hér hefur orðið mikið eignatap miðað við hvernig það stendur í dag. Krónan hefur farið úr 113 í 131 stig. Þrátt fyrir öll þessi mál er eignastaða bankanna eigi að síður sterk en lausafjárstaðan er veik og hún er auðvitað veik hjá bankakerfinu um allan heim. Skuldatryggingarálagið veldur bankakerfinu miklum erfiðleikum og getur átt eftir að hafa mikil áhrif á atvinnulífið og þjóðarbúið hér á landi. Þessu vil ég halda til haga í upphafi.

Ég lýsi auðvitað fullri ábyrgð á hendur hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni á því hversu daufleg stjórnin hefur verið og hversu seint hún hefur farið af stað og þess vegna ber hún mjög mikla ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin. Þessu vil ég halda skýrt til haga. Menn tala um stóriðjustopp og það var svo sem vitað eftir síðustu kosningar að ekki stæði mikið til á þessu kjörtímabili þó að menn hafi verið að undirbúa framtíðina eins og eðlilegt er, bæði með álveri í Helguvík og á Bakka við Húsavík. Það kann nú að vera, og ég get tekið undir það með hæstv. forsætisráðherra, að það dragi það skart saman og verði það mikið útsog að það geti verið mikilvægt, kannski ekki á þessu ári en einhvern tíma á kjörtímabilinu, að flýta þessum framkvæmdum. Ég tel reyndar óráðlegt að fara í þær samtímis en það kann vel að vera að til þess að halda uppi hagvexti og þeim lífskjörum sem við eigum að grípa þurfi til aðgerða og flýta þessum framkvæmdum á þessu kjörtímabili. Ég vil að það komi fram. Það er auðvitað vandasamt og það væri fróðlegt að spyrja fulltrúa Samfylkingarinnar sem hér eiga að tala, eins og hæstv. viðskiptaráðherra, hvort hann sjái fyrir sér að rétt væri að flýta framkvæmdum við þessar aðstæður. Samfylkingin hefur nú mest talað um hið Fagra Ísland sem Íslendingar hafa þekkt í þúsund ár, en það væri gaman að fá viðbrögð hæstv. ráðherra við þessum hugmyndum, bæði því sem forsætisráðherra sagði hér og ég segi hér að svo getur þrengt að í þeirri heimskreppu sem að hluta til verður vonandi ekki stór en blasir við að það geti verið mikilvægt að ganga til þeirra verka.

Það var strax á sumarmánuðum sem við framsóknarmenn fluttum ríkisstjórninni varnaðarorð okkar. Við gerðum okkur grein fyrir því og viðurkenndum það að á kosningaári eru menn yfirleitt í stórtækum efnahagsaðgerðum og þess vegna var mjög mikilvægt að hafa það hin fyrstu skref nýrrar ríkisstjórnar að taka á þeim mikla efnahagsvanda sem blasti við. Við töluðum þar um þjóðarsátt, framsóknarmenn, að það væri mikilvægt fyrir ríkisstjórnina að vinna með Seðlabankanum og fá atvinnulífið með sér. Ég hef talað um lífeyrissjóðina sem hafa verið í fjárfestingunum með auðmönnunum úti um heim og eru hið sterka afl Íslands en því miður skellti forsætisráðherra skollaeyrum við öllum þessum tillögum. Meira að segja bauð ég það hér að kannski væri mikilvægt við þessar aðstæður að grípa til þess ráðs að mynda þjóðstjórn til að taka á þeim mikla vanda sem blasir við til þess að lendingin verði mjúk og það er auðvitað ábyrgðarleysi að hafna slíku.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að hvetja ríkisstjórnina til að vinna úr efnahagsmálunum. Mér finnst eins og hún látist vera í hljómsveit en samspilið virðist litlu máli skipta, ríkisstjórnin spilar eins og trommusóló af hörðustu gerð og af miklu gáleysi. Hún lætur eins og hún sé ein á sviðinu og ætlar að ná athyglinni. Á meðan ríkisstjórnin er upptekin við eigið tónleikahald standa áheyrendur og fylgjast með hvernig aðrir meðlimir hljómsveitarinnar reyna að halda sínu lagi. Útkoman er vægast sagt hættuleg. Ég veit að hæstv. forsætisráðherra er góður söngvari en hann ætti að geta náð kórnum undir sama lagið og hafið hér vinnu.

Ég fagna því að tveir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa tekið undir stefnu okkar framsóknarmanna og baráttu og nú hefur sá þriðji bæst í hópinn, því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson segir í blöðunum í dag að það sé mjög mikilvægt að fara varlega. Hann tekur meira að segja undir það sem við höfum verið að tala um út af hinu litla hagkerfi í Seðlabankanum að það geti verið verðugt verkefni þegar forsætisráðherra hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að evra verður ekki tekin upp einhliða að skoða hvort aðrir gjaldmiðlar og gjaldmiðlasamstarf við stærri heildir komi til greina. Þetta tekur hv. þingmaður undir og ég fagna því að sjálfstæðismenn eru að vakna einn af öðrum. Það eru að vísu ekki þeir eldri sem vakna mikið, það byrjar í yngri deildinni og það er auðvitað fagnaðarefni að sjá að unga fólkið í flokknum hefur áhyggjur af siglingu hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar í því ölduróti sem nú blasir við. (Gripið fram í: … sofa.) Það kann að vera að þessir hv. þingmenn sofi á nóttunni eins og forsætisráðherra leggur mikið upp úr, alla vega hvað Samfylkinguna varðar.

Það blasir við mikið flækjustig og það verður að taka höndum saman. Hæstv. forsætisráðherra verður að gera sér grein fyrir því að það er ríkisstjórnin sem stjórnar efnahagsmálunum á Íslandi en ekki Seðlabankinn. Seðlabankinn hefur haldið uppi gríðarlega háum stýrivöxtum og hækkaði að mér fannst óvænt í nóvember og kemst ekki út úr sinni stöðu enn þá. Það þarf að vinna okkur út úr þeirri stöðu. Við erum auðvitað með verðtryggingu og þessa háu vexti undir því álagi að það er eftirsótt að fjárfesta hér (Forseti hringir.) við þessar aðstæður. Ég lýsi því hér yfir að við framsóknarmenn viljum leggja því lið að lendingin (Forseti hringir.) verði snertilending. Við trúum á framtak Íslendinga og hvetjum ríkisstjórnina enn og aftur til þess að vakna og halda áfram að reyna að (Forseti hringir.) ná samstarfi við svo marga aðila í þjóðfélaginu sem skipta máli við þessar aðstæður.