135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

staða efnahags-, atvinnu- og kjaramála.

[15:11]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar erum ákaflega lánsöm þjóð, rík að auðlindum í sjó og jörðu og í lífskjörum hefur okkur tekist á tiltölulega skömmum tíma að komast í röð fremstu ríkja. Undanfarin ár hafa þó nokkur átök verið um það á Alþingi hvert skyldi stefna en samanlagt höfum við tekið nógu margar góðar ákvarðanir til að tryggja slíkar framfarir í efnahagslegu og velferðarlegu tilliti að eftir er tekið víða um heim.

Hagvöxtur á Íslandi árið 2005 var 7%. Slíkar tölur sjást gjarnan hjá ríkjum þar sem meiri háttar þjóðfélagslegar breytingar eru að eiga sér stað. Árið eftir var hagvöxtur rúm 4% og hefur síðan farið lækkandi og samkvæmt spá Seðlabankans er gert ráð fyrir 0,4% hagvexti á yfirstandandi ári en samdrætti á næsta ári. Þessar miklu sveiflur í hagkerfinu eru óheppilegar. Í miklum meðvindi þeysist þjóðarskútan áfram, stundum þannig að menn þurfa að rifa seglin og það brakar í en þegar skyndilega lægir getur tekið tíma að hífa seglin upp að nýju til að ná ferð. Stjórnvöld þurfa að huga að aðgerðum til að lágmarka þessar sveiflur, ekki síst vegna þess að í opnu smáu hagkerfi eins og okkar má jafnan gera ráð fyrir meiri sveiflum en stærri hagkerfi þurfa að þola. Það er því eitt meginverkefni líðandi stundar en líka til langs tíma að stuðla að auknu jafnvægi og stöðugleika í efnahagslífinu.

Um þessar mundir er mótvindur í mörgu tilliti. Enn mælist umtalsverður verðbólguþrýstingur. Það rennir stoðum undir aðhaldssama peningamálastefnu. Nauðsynlegt er að kæla vélarnar eftir það sem á undan er gengið en hið vandrataða einstigi liggur milli ofkælingar og áframhaldandi þenslu. Ýmis teikn eru á lofti um að á næstunni muni hægja verulega á í efnahagslífinu og koma þar margir samverkandi þættir við sögu. Nú sjást skýr merki þess að tekið sé að hægja um á húsnæðismarkaði. Húsnæðisliðurinn hefur til skamms tíma verið áhrifamikill í verðbólgumælingum en væntanlega mun húsnæðisverð lækka eða í það minnsta standa í stað á næstunni. Lánsfjárkrísa á alþjóðlegum mörkuðum hefur þrengt töluvert að fjármögnunarmöguleikum fyrirtækja og þau leita nú leiða til að auka laust fé og takmarka lánsfjárþörf, m.a. í ljósi hinna háu innlendu vaxta. Þannig eru þau að fresta framkvæmdum, draga úr rekstrarkostnaði og grípa til annarra viðlíka ráðstafana. Á sama tíma hafa hlutabréfamarkaðir lækkað umtalsvert og allt þetta samanlagt er líklegt til að draga úr eftirspurn og líka einkaneyslu.

Ekkert af framansögðu gefur tilefni til að hafa miklar áhyggjur í sjálfu sér ef ekki kæmi annað til. Ef hins vegar skilyrði á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum batna ekki á næstu missirum er hætt við að sá vandi sem af því hlýst muni ásamt núverandi vaxtastigi geta valdið snöggkælingu á atvinnustarfseminni og þá er stutt í frekari uppsagnir og óstöðugleika. Ef á reynir hlýtur að þurfa að taka tillit til þessa við peningamálastjórnina. Við þessar kringumstæður er mikilvægt að stjórnvöld beiti tiltækum úrræðum til mótvægis við ástandið en ekki síst í því skyni að stuðla að jafnvægi til langs tíma. Nýgerðir kjarasamningar bera vott um að aðilar vinnumarkaðarins beri skynbragð á verkefni næstu missirin en það er að verja fenginn kaupmátt og það er mikið komið undir samningum opinberra starfsmanna sem eru fram undan og nauðsynlegt að sömu sjónarmið og leiddu til farsællar niðurstöðu hjá aðilum vinnumarkaðarins verði þar höfð að leiðarljósi.

Virðulegi forseti. Ný skýrsla um Ísland segir að meginverkefni stjórnvalda sé að koma á stöðugleika. Skýrslan geymir fjölmargar skynsamlegar tillögur sem við hljótum að taka tillit til við núverandi aðstæður. Mesta athygli hljóta ábendingar OECD um nauðsyn þess að styrkja þjóðhagslega stefnumörkun að vekja. Það ánægjulega í stöðunni er að ríkissjóður hefur undanfarin ár verið að styrkja stöðu sína með niðurgreiðslu skulda, innborgunum inn á skuldbindingar í lífeyrissjóðakerfinu. Gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans hefur verið stækkaður og hefur aldrei verið stærri. Fyrirtæki í landinu hafa almennt verið í góðum rekstri og bankarnir skilað góðri afkomu. Við höfum borið gæfu til þess að setja stóraukna fjármuni í menntakerfið og (Forseti hringir.) samantekið eru innviðir samfélagsins sterkir. Við höfum því verið að fjárfesta í framtíðinni og höfum öll skilyrði til að halda góðri siglingu inn í framtíðina.