135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

staða efnahags-, atvinnu- og kjaramála.

[15:19]
Hlusta

Sigfús Karlsson (F):

Herra forseti. Ég byrja á að þakka málshefjanda fyrir að taka upp þessa þörfu umræðu hér á hinu háa Alþingi. Staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar hefur oft verið betri en hún hefur einnig verið verri. Það er mikilvægt að hafa í huga þegar horft er til þess viðfangsefnis sem nú blasir við.

Vandamálin fram undan eru vissulega allmörg. Óróleiki á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefur vitaskuld áhrif á gengi hlutabréfa hér heima. Þá er verðbólgan enn afar há og afleiðingar hárra stýrivaxta munu hafa mikil áhrif í átt til snarps samdráttar í innlendri eftirspurn. Því mun hraðar draga úr umsvifum heimilanna og atvinnulífs en margir höfðu áður áætlað og fyrir vikið er hætt við að atvinnuleysi muni aukast á næstu missirum.

Hættan á auknu atvinnuleysi og verri efnahag landsmanna er nefnilega vissulega fyrir hendi því að meginvandinn nú er sá að landsmenn búa við duglitla og daufgerða ríkisstjórn sem ekkert virðist ætla að gera til að ná tökum á ástandinu. Þvert á móti hafa forustumenn ríkisstjórnarinnar stungið höfðinu í sandinn til að forðast þá sviptivinda sem leika um efnahagslífið nú um stundir. Fyrir vikið hefur tiltrú neytenda á ástandinu í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar lækkað verulega ef marka má væntingarvísitölu Gallups. Athyglisvert er að væntingarvísitalan lækkaði mest á meðal fólks í tekjulægsta hópnum. Ef marka má þetta hafa landsmenn því ekki mikla trú á kjarasamningum þeim sem nýverið náðist samkomulag um.

Ef til vill mætti þó frekar álykta sem svo að landsmenn hafi ekki mikla trú á að verðbólgan náist niður eins og hún þarf að gera og kjarabæturnar verði fyrir vikið minni en ella. Verðbólgan er nefnilega sem fyrr segir eitt meginvandamálið fyrir utan slæma ríkisstjórn. Verðbólgan jókst í febrúarmánuði og mældist 12 mánaða verðbólga þá 6,8% eftir hækkun vísitölu neysluverðs um 1,38% frá fyrra mánuði. Vegur þyngst í breytingum á vísitölunni hækkun bensínverðs og verðhækkun nýrra bifreiða. Það er talsvert umfram þær hækkanir sem greiningardeildir bankanna höfðu spáð og í stuttu máli sagt eru tíðindin ekki góð.

Til að setja þessa háu verðbólgu í eitthvert samhengi þá má geta þess að ef 10 millj. kr. verðtryggt lán er tekið í dag til 40 ára þarf lántakandi að greiða fyrir lánið 136 millj. kr. þegar upp er staðið. Það er ef verðbólgan yrði á þessu róli allan lánstímann og vextirnir yrðu þeir sem bankarnir bjóða upp á í dag eða 6,4%. Með öðrum orðum þarf lántakandinn að borga 126 millj. kr. fyrir 10 millj. kr. lánið sem hann tók og kostnaður skiptist jafnt í vexti og verðbætur.

Ríkisstjórnin virðist fátt ætla að taka til bragðs til að taka þátt í því með Seðlabankanum og atvinnulífinu að ná hér niður verðbólgunni. Þó hefur hún fjölmörg tækifæri til að láta að sér kveða á þessu sviði. Meðal þess sem mætti íhuga er tímabundin lækkun olíugjaldsins. Einnig gæti ríkisstjórnin beitt sér fyrir hvetjandi aðgerðum til að stuðla að sparnaði landsmanna og þannig dregið úr peningamagni í umferð. Samhliða slíku væri dregið úr þörf bankanna til að leita erlendis eftir lausafé til að viðhalda vexti og viðgangi fyrirtækjanna. Þá gæti ríkisstjórnin beitt sér fyrir enn frekari eflingu Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins eins og við framsóknarmenn höfum margoft lagt til. Það er nefnilega ekki kostur í stöðunni að gera ekki neitt, eins og hæstv. forsætisráðherra virðist hafa að lífsmottói sínu í dag.

Ég vil þó ekki draga upp of dökka mynd af ástandinu því að staðan er ekki alslæm og eins og ég gat um í upphafi máls míns hafa landsmenn séð það svartara. Staða þjóðarbúsins tók nefnilega miklum stakkaskiptum í ríkisstjórnartíð okkar framsóknarmanna. Á þeim 12 árum sem Framsóknarflokkurinn hélt um stjórnartaumana var byggt upp hér öflugt atvinnulíf þar sem fjölbreytni þess var aukin til muna. Þá voru skuldir ríkissjóðs lækkaðar verulega svo að ríkissjóður er núna nánast skuldlaus. Lífeyriskerfi landsmanna er eitt hið öflugasta í veröldinni. Bankakerfið hefur tekið stakkaskiptum og hinar öflugu fjármálastofnanir okkar eru ágætlega í stakk búnar til að taka á þeim vandamálum sem við blasa. Þá mun verðmæti innfluttra vara fara vaxandi þegar álverið í Reyðarfirði bætist við. Þá er byggðin ung, vel menntuð og tækifærin blasa við hvert sem augum er litið.

Það sem helst vantar upp á er að ríkisstjórnin taki á þeim neikvæðu tímabundnu aðstæðum sem nú eru og vinni með Seðlabanka Íslands og atvinnulífinu svo að lendingin verði ekki of hörð þannig að jafnvægi verði náð með mjúkum hætti. (Forseti hringir.) Ég leyfi mér því að leggja til að lokum, herra forseti, að ríkisstjórn Íslands sjái sóma sinn í því að bregðast við ástandinu eða að hún hleypi að samstilltari og ábyrgari (Forseti hringir.) öflum sem taki við stjórnartaumunum. Þjóðin þarf á því að halda.