135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

staða efnahags-, atvinnu- og kjaramála.

[15:50]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt í þessari umræðu að rugla ekki saman skammtímavanda og langtímaerfiðleikum og rugla ekki saman hlutunum almennt. Rugla ekki saman því sem er að gerast í efnahagsmálunum innan lands og var sumpart fyrirséð og því sem ber að okkur erlendis frá og við fáum ekki að gert en þurfum eigi að síður að bregðast við.

Ég kannast ekki við þessi ummæli hv. þingmanns um óvild Dana sem hann er búinn að viðhafa hér í tvígang en ég man eftir því að hv. þingmaður sjálfur spurði engan annan en forsætisráðherra Danmerkur að því á Norðurlandaráðsþingi hvernig stæði á þessum skrifum í dönsku blöðunum um íslensku fyrirtækin. Og þingmaðurinn man eflaust eftir því hverju forsætisráðherrann svaraði. Hann sagði: „Þeir skrifa nú bara um ykkur eins og þeir skrifa um danska stjórnmálamenn, við höfum ekkert með það að gera.“ Og þá hló salurinn allur.

Við getum ekki gert slíka hluti að aðalatriði en ef við viljum tala um það eitt augnablik hér þá getum við auðvitað beitt okkur fyrir því að koma réttum upplýsingum á framfæri um efnahagsmálin í landinu, vegna þess að hagkerfið er svo lítið og hefur svo mikla sérstöðu að það er fjöldi manns sem áttar sig ekki á því hvernig hlutirnir ganga hér fyrir sig. Prófessor Frederik Mishkin, sem er núna seðlabankastjóri í Bandaríkjunum, setti sig inn í þetta mál fyrir tveimur árum og skrifaði ásamt Tryggva Þór Herbertssyni mjög góða skýrslu um þetta. Annar prófessor, Portes að nafni, skrifaði aðra skýrslu í nóvember síðastliðnum ásamt Friðriki Má Baldurssyni prófessor um fjármálamarkaðinn hér og bankana. Og þegar menn gera það komast þeir að raun um að ástandið er allt annað en gefið er til kynna í þessum erlendu blöðum þar sem menn fara ekki djúpt í málin. Þetta er eitt. Það er þetta sem við ætlum að bregðast við og sumir þingmenn hér hafa kallað ímyndunarherferð. (Gripið fram í.) Ímyndunarherferð hafa tveir eða þrír þingmenn sagt hér í dag. Sjálfsagt ætluðu þeir að segja ímyndarherferð. En það er nú svo með mismælin að þau hitta stundum menn sjálfa fyrir.

Ég ætla ekki að eyða frekari orðum að þessu vegna þess að þetta er sérmál og staða bankanna og erfiðleikarnir sem þeir gætu staðið frammi fyrir varðandi lausafjáröflun er auðvitað sérmál. En við þurfum auðvitað að átta okkur á stöðunni, fylgjast með henni og reyna að leggja okkar lóð á vogarskálarnar, stjórnvöld, eftir því sem hægt er til að greiða fyrir því að þessu ástandi linni vegna þess að það hefur mjög erfið áhrif og vond hér á innlendum lánamarkaði þegar bankarnir þurfa að snögghemla eða stíga mjög harkalega á bremsurnar eins og þeir eru byrjaðir að gera. Það er eitt. Hitt er síðan hið almenna efnahagsástand sem ég ræddi í upphafi fyrri ræðu minnar og var að hluta til fyrirséð vegna þess að við vissum auðvitað að hægjast mundi um í efnahagslífinu þegar stórframkvæmdum lyki austur á landi. En nú er þetta að gerast samtímis. Það er að hægja á vegna þess að það tímabil er frá en líka vegna þess að bankarnir eru byrjaðir að grípa í taumana vegna ytri aðstæðna og þá þarf auðvitað að hafa ráð uppi í erminni til þess að bregðast við þessu.

Það vill bara þannig til, þrátt fyrir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram í dag, að ríkisstjórnin var búin að ákveða heilmikla framkvæmdaaukningu sem nú mun koma til góða á þessu ári t.d. í sambandi við vegaframkvæmdir, sem hvort eð er hefði þurft að ráðast í, og samgöngubætur eru náttúrlega eitt af því sem allir hér í þinginu sameinast um að gera kröfu um. Síðan er þá næsta spurning: Þarf eitthvað meira til en það? Þar er það sem framkvæmdir á borð við nýtt álver geta skipt verulega miklu máli og haft heilmikil áhrif til að auka hagvöxtinn og blása lífi í þær glæður sem nú virðast vera að kólna hratt. Þess vegna hangir þetta allt saman að þessu leytinu til.

Hvað menn síðan gerðu í skattamálum fyrir nokkrum árum, þar sem létt var þungum byrðum af almenningi og fyrirtækjum í sambandi við skatta, er auðvitað óviðkomandi þessu máli eins og staðan er núna. Menn geta haft sínar pólitísku skoðanir á því hvort það hafi verið rétt eða rangt. Ég tel að það hafi verið rétt. Það mátti deila um einstakar tímasetningar. Gott og vel. Látum það liggja á milli hluta. Eins og staðan er núna er það vandamálinu sem við erum að fást við óviðkomandi. Og eigum við ekki að sameinast um það að glíma við vandann eins og hann er en ekki gamla fortíðardrauga sem menn voru ósammála um á sínum tíma?