135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

efni og efnablöndur.

431. mál
[15:56]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Innan Evrópusambandsins var í lok árs 2006, eftir áralangan undirbúning, samþykkt ný heildarlöggjöf á sviði efna og efnavara, svokölluð REACH-reglugerð, eða „reglugerð um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir, að því er varðar efni“. Reglugerðin tók gildi innan Evrópusambandsins þann 1. júní 2007. Markmið löggjafarinnar er annars vegar að tryggja að meðferð á efnum valdi ekki tjóni á heilsu manna og dýra eða á umhverfi og hins vegar að tryggja frjálst flæði á efnavörum á markaði. Með frumvarpi til laga um efni og efnablöndur sem hér er mælt fyrir er sett lagastoð fyrir innleiðingu REACH-reglugerðarinnar hér á landi. Gert er ráð fyrir að REACH-reglugerðin verði tekin upp í EES-samninginn í mars eða apríl á þessu ári.

Grundvallarhugsunin að baki REACH er að öll efni sem framleidd eru eða sett á markað á EES-svæðinu verði skráð og greind og þau efni sem hafi hættulega eiginleika verði háð notkunartakmörkunum. Fyrirtæki munu geta sameinast um skráningu efnis og þannig deilt kostnaði vegna hennar en aðeins ef þau forskrá efnin á tímabilinu 1. júní 2008 til 1. desember 2008. Afar brýnt er að íslensk fyrirtæki geti forskráð sín efni á þessum tíma og fengið þannig aðgang að samstarfi við önnur fyrirtæki í Evrópu um skráningu efna og þá gagnaöflun og prófanir sem skráningunni fylgja. Að öðrum kosti mun skráningin verða mun umfangsmeiri og kostnaðarsamari fyrir íslensk fyrirtæki.

Yfirvöld hafa hingað til borið ábyrgð á að skráð efni séu metin með tilliti til áhættu en þeirri vinnu hefur miðað hægt. Með innleiðingu REACH-reglugerðarinnar mun ábyrgð á áhættumati efna flytjast yfir á framleiðendur þeirra sem og innflytjendur frá löndum utan EES. Framleiðendur og innflytjendur þurfa að veita upplýsingar um eiginleika efna sinna, notkunarsvið, váhrif og hvernig nota megi þau á sem öruggastan hátt. Niðurstöður mats á efnum verða síðan grundvöllur að ákvarðanatöku um hvort setja þarf takmarkanir á notkun efna. Ein af grundvallarreglum reglugerðarinnar er að hættulegum efnum verði markvisst skipt út fyrir hættuminni staðgengilsefni sem vitað er að koma að sömu notum.

Í REACH felst að ný Efnastofnun Evrópu er sett á fót og hefur henni verið fundinn staður í Helsinki. Efnastofnunin mun halda utan um verklega framkvæmd á ákvæðum REACH-reglugerðarinnar, annast skráningu efna og gera tillögur um notkunartakmarkanir á efnum til framkvæmdastjórnar EB. Efnastofnunin hefur einnig yfirumsjón með gerð leiðbeininga fyrir iðnaðinn og yfirvöld sem og utanumhald um gagnagrunna um efni sem aðgengilegir verða almenningi og yfirvöldum. Stefnt er að því af hálfu stjórnvalda að Ísland verði fullgildur þátttakandi í nýju Efnastofnuninni í Helsinki og aðild Íslands að stofnuninni verði því með sama hætti og aðild aðildarríkja Evrópusambandsins.

Samkvæmt lauslegri athugun flytja rúmlega 500 fyrirtæki inn til Íslands efni og efnavörur í meira magni en 1 tonn á ári, þar af um eitt hundrað frá löndum utan EES-svæðisins. Gera má ráð fyrir að töluverður hluti þessara tæplega hundrað fyrirtækja muni þurfa skrá efni sín hjá Efnastofnun Evrópu samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Til viðbótar eru nokkrir framleiðendur efna starfandi á Íslandi og þurfa þeir að skrá framleiðslu sína sé hún meira en eitt tonn á ári. Við meðferð málsins af hálfu umhverfisráðuneytisins og Umhverfisstofnunar hefur verið haft samráð við Samtök atvinnulífsins, Samtök verslunar og þjónustu og Félag íslenskra stórkaupmanna og hafa þessir aðilar hafið undirbúning vegna innleiðingar reglugerðarinnar. Í flestum tilvikum teljast íslensk fyrirtæki hins vegar svokallaðir eftirnotendur efna sem almennt bera ekki sömu skyldur og framleiðendur og innflytjendur hvað varðar skráningu og mat á efnum. Þau fyrirtæki munu njóta góðs af auknum upplýsingum frá birgjum sínum varðandi eiginleika efna en jafnframt eru lagðar þeim á herðar skyldur um örugga notkun efna og um upplýsingagjöf bæði til Efnastofnunarinnar, til birgja og til viðskiptavina.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.