135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

efni og efnablöndur.

431. mál
[16:16]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þeir tveir hv. þingmenn sem hafa tjáð sig um þetta mál skuli fagna því að það skuli vera komið fram en eins og líka hefur komið fram hefur verið beðið eftir þessu lengi.

Það má segja að hæstv. umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, taki vel á þessum málum. Við sjáum það þegar farið er yfir málið og í því sem kom fram í flutningsræðu minni sem ég flyt fyrir hennar hönd að í því felst mikill metnaður að stefnt skuli að því af hálfu stjórnvalda að Ísland verði fullgildur þátttakandi í nýju efnastofnuninni í Helsinki og aðild Íslands að stofnuninni verði því með sama hætti og aðildarríkja Evrópusambandsins.

Þetta er auðvitað eins og hæstvirts umhverfisráðherra er von og vísa og því hefur mér verið heiður að því að flytja þetta mál hér fyrir hennar hönd og ég vil þakka þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni kærlega fyrir þátttökuna.