135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

skipulags- og byggingarlög.

434. mál
[16:30]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir frumkvæði hennar í þessu máli og að hún skuli leggja fram tvö lagafrumvörp um breytingar á lögum þar sem tekið er á því atriði sem varðar heræfingar. Það er lofsvert að þetta mál skuli tekið inn í þingið með þeim hætti sem hér er lagt til, annars vegar í því frumvarpi sem er til umræðu núna og varðar breytingu á skipulags- og byggingarlögum og sömuleiðis í því máli sem er næst á dagskránni og varðar breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Ástæðan fyrir því að ég segi að það sé lofsvert að taka þetta í þessu samhengi er einkum og sér í lagi nákvæmlega það sem flutningsmaður, hv. þingmaður, gat um í framsöguræðu sinni og það er lýðræðisþátturinn. Staðreyndin er sú að einmitt lögin um mat á umhverfisáhrifum annars vegar og skipulags- og byggingarlögin hins vegar snerta mjög mikið það sem við getum kallað lýðræði, aðkomu almennings að því sem er að gerast í nánasta umhverfi þeirra vegna þess að í þessum lögum er sérstaklega fyrirskrifað hver aðkoma almennings getur verið að tilteknum atriðum eins og í skipulags- og byggingarlögunum þegar við erum að tala um skipulag í nánasta umhverfi fólks. Í skipulags- og byggingarlögunum er sérstaklega tekið fram með hvaða hætti á að auglýsa, með hvaða hætti almenningur hefur möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og gera athugasemdir og hverjar eru skyldur sveitarfélagsins að svara athugasemdum sem koma fram. Þess vegna er mjög vel við hæfi að mínu mati að lagt skuli til að sú hugsun sem hv. þingmaður hefur gert prýðilega grein fyrir í framsögu sinni komi inn í skipulags- og byggingarlögin.

Eins og kom fram í máli hv. flutningsmanns er það líka sagt strax í 1. gr. skipulags- og byggingarlaga, þar sem fjallað er um markmið þeirra laga að það eigi að vera að tryggja þróun byggðar og landnotkunar og hún skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir og þar er sérstaklega vísað til hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar um efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi. Til þess að ná þessu markmiði laganna er að mínu viti mikilvægt að koma því ákvæði sem hér er lagt til inn í skipulags- og byggingarlög vegna þess að þau lög og raunar engin lög gefa sveitarstjórnum í dag tækifæri til að taka á málum af þessum toga alveg óháð því hvaða afstöðu þau kunna að hafa til heræfinga sem hér er verið að fjalla um.

Ég get t.d. nefnt það sérstaklega af því að flutningsmaður tæpti aðeins á því, hún nefndi Sundahöfn og komu erlendra herskipa hingað í þessu efni, að ég hef fylgst með því í gegnum mörg ár þegar erlend herskip hafa komið til hafnar í Reykjavík og þá hefur gjarnan verið spurt hvaða tök séu á því fyrir hafnaryfirvöld, sveitarfélagið eða hafnaryfirvöld að hafa sjálfstæða skoðun á því hvort þau vilji fá heimsókn af þessum toga til sín. Það svar sem hefur ævinlega verið gefið er einfaldlega það að þetta séu gestir íslenskra stjórnvalda og á móti þeim verði að taka. Ráð sveitarfélagsins Reykjavíkur og hafnaryfirvalda í Reykjavík hefur þá verið það í samskiptum sínum við utanríkisráðuneytið um þessar herskipakomur að benda einfaldlega á það að borgarstjórn Reykjavíkur hafi gert samþykkt um að borgin sé kjarnorkuvopnalaust svæði og því er komið á framfæri við utanríkisráðuneytið sem tekur við þeim skilaboðum og kemur til stjórnvalda þeirra ríkja sem herskipin koma frá en það fást hins vegar aldrei nein svör um það hvort slík vopn sé að finna í viðkomandi skipum.

Með því að setja ákvæði í skipulags- og byggingarlögin með þeim hætti sem hér er lagt til fá sveitarfélögin tæki til þess í raun og veru að tryggja það að stefna þeirra nái fram að ganga hvað þetta snertir. Ég hygg að langflest sveitarfélög í landinu hafi lýst því yfir að þau séu kjarnorkuvopnalaust svæði eða laus við eiturefni og kjarnorkuvopn o.s.frv. — ég hygg að þau séu bara örfá, kannski teljandi á fingrum annarrar handar sem ekki hafa gert það — en engu að síður hafa þessi sveitarfélög engin tækifæri til að koma þessum vilja sínum á framfæri ef stjórnvöld ákveða eitthvað annað og þá er ég að tala um stjórnvöld á landsvísu.

Eins og kom fram hjá flutningsmanni erum við sem stöndum að þessari tillögu að sjálfsögðu þeirrar skoðunar að heræfingar út af fyrir sig séu til mikillar óþurftar og það eigi í raun ekkert að taka við þeim hér á landi. Þetta er engu að síður gert og þá er vilji sveitarfélaganna ekki hafður til hliðsjónar þegar stjórnvöld taka svona ákvarðanir. Réttur almennra borgara til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum, mótmælum o.s.frv., er hvergi tryggður og þess vegna er mikilvægt að leggja þetta til með þeim hætti sem hér er verið að gera. Í greinargerð með þessu frumvarpi er m.a. tekið dæmi um sveitarstjórn Hvalfjarðarstrandarhrepps sem hafi gert athugasemdir við heræfingar í gömlu herstöðinni í Hvalfirði þar sem ekkert samráð var haft við stjórnendur sveitarfélagsins um það hvort þær ættu að fara fram, hvernig og undir hvaða skilmálum o.s.frv. Þess vegna má segja að það sé afskaplega ólýðræðislegt hvernig að þessum málum er staðið eins og staðan er í dag.

Þess vegna er lagt til að í skipulags- og byggingarlögin verði bætt við ákvæði sem tekur á þessu sérstaklega og segir einfaldlega að sveitarstjórn skuli taka ákvörðun um hvort heræfingar séu samþykktar á tilteknum stað eða ekki. Það er hægt að gera t.d. í skipulagsáætlun, það er hægt að gera t.d. í aðalskipulagi sveitarfélags. Sveitarfélagið gæti þar með sagt í aðalskipulagi sínu, ef það fengi heimild í þessum lögum, í samræmi við þá stefnu sem viðkomandi sveitarfélag hefur tekið varðandi kjarnorkuvopnalaust svæði, að heræfingar séu ekki leyfðar í lögsagnarumdæmi sveitarfélagsins og þá gildir það og stjórnvöld verða þá að leita annað en til þess sveitarfélags sem þannig tæki á málum.

Um leið gæti sveitarfélag að sjálfsögðu tekið þá ákvörðun að vilja setja það inn í deiliskipulag og notað það sem tæki og einhver sveitarfélög kynnu að vilja heimila heræfingar á einhverju tilteknum stöðum og settu það þá inn í deiliskipulag en þá væri það strax komið inn í skipulagsferli og inn í það ferli sem viðhaft er þegar skipulag er unnið, þar sem slíkir skilmálar væru auglýstir, þar sem íbúar sveitarfélagsins hefðu tök á því að koma og þess vegna gera athugasemdir, mótmæla og þess vegna kæra slíka ákvörðun til annarra stjórnvalda. Hér er hreyft mjög þýðingarmiklu máli sem varðar rétt almennings til að koma að ákvörðunum eins og hér eru á ferðinni.

Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir vakti máls á því að heræfingar gætu gengið gegn þeim samfélagslegu og menningarlegu markmiðum sem einstök sveitarfélög hafa sett sér. Þetta á t.d. við eins og hér er í greinargerð rakið hvað varðar Friðarstofnun Reykjavíkur. Það var í tengslum við Höfðafundinn árið 2006 þegar þess var minnst að 20 ár voru liðin frá leiðtogafundi Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og Mikhails Gorbatsjovs, leiðtoga Sovétríkjanna, og Mikhail Gorbatsjov kom sem gestur á þann fund, að hreyft var þeirri hugmynd að koma á stofn Friðarstofnun Reykjavíkur og var þá tengd því starfi sem Gorbatsjov, friðarverðlaunahafi Nóbels, hefur verið að vinna á alþjóðavettvangi undanfarin ár. Það er rétt sem þá var sagt, þáverandi borgarstjóri, kannski einhvern tíma síðar verðandi borgarstjóri á nýjan leik, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, lýsti því þá yfir að Ísland væri herlaust land og þar væri engin hefð fyrir hernaðaruppbyggingu eða herrekstri og Reykjavík væri þess vegna góður vettvangur einmitt til viðræðna um friðsamlega úrlausn alþjóðlegra deilumála. Einmitt í þessu samhengi hlýtur maður að spyrja sig: Já, það er gott að Reykjavík eða hvaða annað sveitarfélag sem í hlut á hefur slíka stefnumörkun en hvaða tæki hefur viðkomandi sveitarfélag til að koma þessum markmiðum sínum til skila og í framkvæmd? Þessi tæki hefur sannarlega skort.

Ég vil þess vegna, herra forseti, ítreka að ég tel að það sé mjög vel til fundið að koma þessari hugsun um heræfingarnar og hvaða ferli þær þurfa að hafa — það er ekkert óeðlilegt við það að menn þurfi að fara í gegnum eitthvert lýðræðislegt ferli með heræfingar eins og hvaða aðrar athafnir sem viðhafðar eru í sveitarfélögum og gætu verið skipulagsskyldar eða eðlilegt væri að meta áhrif þeirra á umhverfið — inn með þessum hætti í skipulags- og byggingarlögin og tryggja eins og ég sagði lýðræðislega aðkomu íbúanna að ákvörðunum um atriði sem sannarlega varða mjög miklu fyrir íbúana, geta haft umtalsvert ónæði í för með sér fyrir mjög marga og jafnvel skaða eins og dæmi eru um, því miður.

Ég fagna þess vegna því frumvarpi sem hér er lagt fram og vænti þess og vonast til að það fái málefnalega umfjöllun í þingnefnd, sem væntanlega verður umhverfisnefnd, og það verði sent til umsagnar að sjálfsögðu og vonandi fær það góðar viðtökur líka hjá þeim sem fá málið til umsagnar. Ég ber að sjálfsögðu þá von í brjósti að umhverfisnefnd treysti sér til að afgreiða málið frá sér og til 2. umr. og það geti orðið stuðningur við það. Síðan er þess að geta að skipulagslögin eru til heildarendurskoðunar og umfjöllunar á vettvangi umhverfisnefndar þannig að vel kann að vera að þetta frumvarp fari inn í þá umræðu og þá yfirferð hjá nefndinni og það verður bara kostur að geta látið þessa breytingartillögu fylgja frumvarpinu að öðru leyti þegar það kemur úr nefnd til frekari umfjöllunar.