135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

mat á umhverfisáhrifum.

435. mál
[17:11]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins um dagskrána. Það er rétt að hér eru nokkur umhverfismál á dagskrá þingsins þó að hæstv. umhverfisráðherra sinni embættiserindum á öðrum vettvangi og sé með fjarvist.

Ég held þó að það hafi verið ágætt fyrir framgang þingstarfanna að eigi að síður hafi settur umhverfisráðherra mælt fyrir stjórnarfrumvarpi fyrir hennar hönd en það er fyrst og fremst innleiðing á Evrópusambandsmáli varðandi efnaiðnaðinn. Ég tel að það greiði fyrir störfum þingsins að mælt sé fyrir því núna. Farið er að síga á síðari hluta þingsins og það er gott að fá málið til okkar í umhverfisnefndinni sem fyrst. Settur umhverfisráðherra er fyllilega í stakk búinn til þess að mæla fyrir því máli fyrir hönd ráðherrans og út af fyrir sig er það ekkert frumkvæðismál ráðherrans sjálfs eða afrakstur af stefnumörkun hennar. Það er sem sagt Evrópumál sem við þurfum að fjalla um hér í þinginu, hvernig við viljum og þurfum að fara með það.

Síðan eru í kjölfarið sett á dagskrá nokkur umhverfismál og það er auðvitað eitthvað sem ræða má hvort menn eigi að gera þegar ráðherrar eru með fjarvist á viðkomandi þingdegi, hvort þau mál megi ef til vill bíða. Það getur sitt sýnst hverjum í því. Auðvitað á það að vera meginregla að þegar ráðherrar eru ekki bundnir annars staðar séu þeir hér til þess að ræða þau mál sem lúta að málaflokkum þeirra. Aðstæður eins og í dag eiga að heyra til algerra undantekninga. Engu að síður geta flutningsmenn séð kosti í því að fá málið fyrr á dagskrá en ella með því að ekki sé verið að bíða eftir degi þegar ráðherrann er á staðnum.

Ég vildi hins vegar nota þetta tækifæri og biðja hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur velvirðingar á því að ég sem formaður umhverfisnefndar hafi ekki verið kominn þegar hún talaði fyrir fyrra máli sínu en bæði málin koma náttúrlega til okkar kasta. Það var ætlun mín að taka hér við þeim í dag og þakka hv. þingmanni fyrir málin og þá vinnu sem hún og meðflutningsmenn hennar hafa lagt í þau.

Það er auðvitað engum blöðum um það að fletta að fjölmargir landsmenn hafa haft áhyggjur og efasemdir oft og tíðum um heræfingar og deilur sem hafa sprottið í tengslum við þær, hvort sem þær hafa tengst Hljómskálagarðinum eða hálendinu eða einhvers staðar þar á milli. Vaxandi deilur hafa verið um slíka starfsemi eins og aðra fyrirferðarmikla starfsemi í heiminum víðast hvar. T.d. er víða vaxandi andstaða við lágflug yfir landi eins og getið er í málum hv. þingmanns og sannarlega æ fleiri staðir þar sem slíkar æfingar hafa verið bannaðar á síðari árum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Þess vegna eru full efnisleg rök fyrir því að taka þessi málefni til umfjöllunar í þinginu. Sú viðhorfsbreyting hefur almennt orðið þegar hernaðarmál og öryggismál eru annars vegar, að leynd í öryggis- og hermálum, ógagnsæi og ólýðræðislegar reglur séu þar nauðsynleg og mikilvæg eins og var á tímum kalda stríðsins, að ég nú ekki tali um á tímum heimsstyrjaldanna. Þau sjónarmið hafa vikið á nýrri öld fyrir öðrum sem segja þvert á móti að sú starfsemi sem á að tryggja öryggi okkar, hvort sem það er lögreglustarfsemi eða leyniþjónustustarfsemi eða hernaðarstarfsemi, sé eins mikil og mögulegt er, opin, gagnsæ og lýðræðisleg. Það sé einmitt best til þess fallið að tryggja öryggi okkar sem mest og sem best

Það er þess vegna vel við hæfi að þeim lagabálkum sem eru hvað stærstar stoðir í lýðræðisskipulagi okkar, þ.e. lögin um mat á umhverfisáhrifum annars vegar og skipulags- og byggingarlögin hins vegar, skuli vera hreyft í tengslum við þessi mál, án þess að ég ætli að taka neina efnislega afstöðu til málsins hér við 1. umr. um það. Ég held að minnsta kosti að réttum lagabálkum sé hreyft.

Ég vil þó segja að það er tiltölulega stutt síðan Alþingi lét fara fram mjög viðamikla endurskoðun á lögum um umhverfismat. Þau eru því tiltölulega nýendurskoðuð, ég hygg að það séu tvö ár síðan. Kannski er nokkuð viðurhlutamikið að ráðast strax í breytingar á þeim þegar ekki er lengra liðið.

Hitt þekkja þingmenn að við í umhverfisnefnd höfum til umfjöllunar tvo stóra lagabálka, annars vegar til nýrra skipulagslaga og hins vegar til nýrra laga um mannvirki. Ég held að ósköp eðlilegt sé að þegar fyrra mál hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur er hér komið fram og hefur verið vísað til hv. umhverfisnefndar að lokinni umræðu, að það komi sérstaklega til skoðunar þegar nefndin er að fara yfir almennt skipulags- og byggingarlögin, þ.e. með hvaða hætti þau taka breytingum. Þá verður e.t.v. athugað hvort hægt er í þeirri endurskoðun að verða við þeim sjónarmiðum að hluta eða í heild sem fram koma í því máli sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir hefur mælt fyrir í tveimur framsöguræðum.

Ég færi henni aftur þakkir fyrir og biðst sem sagt velvirðingar á því að hafa ekki getað verið við umræðu um fyrra málið og leyfa mér að teygja fundarsköpin með þeim hætti að fjalla um málið hér undir síðari liðnum.