135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[17:42]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir miður að hlusta á þau stóryrði og brigslyrði sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir viðhafði í tilefni þessarar þingsályktunartillögu. Hér er alls ekki verið að vega að starfsheiðri manna með því að gera kröfu til þess að þeir sem vinna áhættumat, séu óháðir og hafi þess vegna hlutlausa sýn á það sem þeir eru að meta. Ég efast ekki um að þeir sem vinna á verkfræðistofum, hjá Landsvirkjun og hvar sem er, og hafa til þess menntun og þekkingu, vandi sig eins og hv. þingmaður sagði, leggi sig alla fram og nýti sérfræðiþekkingu sína í þessum efnum. Því miður verður mat þeirra á eigin verkum þó alltaf ómarktækt. Matið sem slíkt verður ómarktækt vegna þess að þeir eru að dæma eigin verk. Þetta kom mjög vel í ljós við Kárahnjúkavirkjun þegar verið var að breyta stíflunni og vinna áhættumat fram og til baka.

Það er rétt að með þessari þingsályktunartillögu er vísað til andstöðu Vinstri grænna við þessar framkvæmdir í Þjórsá. Andstaðan er m.a. byggð á því að þessar virkjanir séu stórhættulegar lífi og limum í þessum sveitum og hægt er að vitna til Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings í þeim efnum. Afstaða okkar byggir á þeim málefnalega grunni. (Forseti hringir.) Þess vegna viljum við óháð áhættumat.