135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[17:44]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir að ekki sé dregið í efa faglegt mat þessa ágæta fólks sem þarna vinnur vinnuna sína og þar sé ekki verið að vega að starfsheiðri þeirra. Á sama tíma er talað um að þetta sama fólk geti ekki unnið marktækt, óhlutdrægt og faglega að þessu mati vegna þess að það er verið að gera þá kröfu að þetta sama fólk sem vísað er til vinni ekki að þessu áhættumati. Hvað er þá verið að segja? Er þá verið að segja að þetta fólk sé allt góðra gjalda vert en að sama skapi sé ekki hægt að trúa niðurstöðum þeirra vegna þess að það vinni hjá Landsvirkjun? Er þingmaðurinn þá að segja að Landsvirkjun hliðri niðurstöðum þessara sérfræðinga sem þarna er um að ræða? Það er ekki hægt að skilja það öðruvísi vegna þess að í aðra röndina segir þingmaðurinn að þetta sé hið vænsta fólk og geti unnið vinnuna sína en í hina röndina er ekki hægt að taka mark á því sem það segir og það stefni lífi og limum fólks í hættu. Mér þykir þetta vera mjög alvarlegt og ég óska eftir að þingmaðurinn svari mér hvort það sé það sem liggur fyrir hér. Er Landsvirkjun í huga þingmannsins að kúga starfsfólkið sitt til hlýðni og láta það segja eitthvað sem gengur gegn þeirra faglegu og óhæfu sjónarmiðum? Það þykja mér fréttir.