135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[17:50]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Barn sem ég er í tæknilegum efnum og þar á meðal þeim lagatæknilegu efnum sem ég hef ekki sérstaklega haft fyrir að kynna mér þá finnst mér það skipta máli fyrir þessa umræðu, og vona að hv. síðasti ræðumaður og þingmaður geti upplýst það, hvaða gildi þetta áhættumat hefur sem hér er verið að tala um, áhættumat Landsvirkjunar. Hvað var það sem kallaði fram þetta áhættumat? Og hvaða gildi hefur það? Hefur það eitthvert lögformlegt gildi, er þetta liður í einhverju ferli sem skipað er með lögum eða einhvers konar reglum sem eiga sér lagastoð?

Þó að ég sé barn, eins og áður sagði, í tæknilegum efnum af þessu tagi þá hef ég þó orðið fyrir því að þurfa að fara í gegnum lögin um mat á umhverfisáhrifum vegna setu minnar á þinginu og þar er ákveðið ferli, matsferli, mat, matsskýrslur sem hafa klárt gildi og er skipað með vissum hætti. Það er þannig, og var mjög umdeilt í umræðum okkar um breytingarnar á lögum um mat á umhverfisáhrifum á sínum tíma og er enn, að það er framkvæmdaraðilinn eða framkvæmandinn sem á að gera eða láta gera þessa matsskýrslu. Um það er mjög efast. En, segja menn og ég var hallur undir og er enn hallur undir það sjónarmið, það er þó besta leiðin vegna þess að matsskýrslan fer síðan í sérstakt ferli þar sem sérstakur eftirlitsaðili, faglega hæfur, fer í gegnum þessa skýrslu og segir til um hvort hún er vel gerð, hvort eitthvað vantar á, hvort eitthvað er að. Og það er Skipulagsstofnun í þessu tilviki. Mér finnst skipta máli hér: Er einhver skipulagsstofnun, er einhver prófdómari á það áhættumat sem um er rætt? Ég vona að hv. þingmaður geti svarað þessu.