135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[18:10]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það hafi verið ágætt að hv. þingmaður undirstrikaði hvað áhættumat er. Það þekkjum við hv. þingmaður ágætlega því að við sátum einmitt saman í stjórn Landsvirkjunar þegar umrætt áhættumat fyrir Kárahnjúkavirkjun var þar til umfjöllunar sem þingmaðurinn nefndi.

Þar var því hins vegar til að dreifa að fyrir lá að sprungur væru í lónsstæðinu og í tengslum við stíflur sem gáfu fullt tilefni til þess að efast um fyrri forsendur hönnunar og fyrra mat sem fram var komið, nýjar veigamiklar ástæður og veruleg efnisleg rök fyrir því að fara í málið aftur og endurskoða það og slíkt getur auðvitað alltaf komið upp. En það sem mér þótti um umræðuna á þessum fundi í dag var einfaldlega það að ekki væru komin fram í máli hv. þingmanna nein þau veigamiklu efnislegu rök fyrir því að áhætta í þessum verkefnum hafi verið vanmetin eða rangt metin sem kölluðu á jafnóeðlilegt inngrip og eftiráályktun Alþingis um það að fara skyldi í mat á öllu upp á nýtt. Þegar framkvæmdaraðilinn er búinn að fara í gegnum málið, þegar búið er að fara í gegnum lög um mat á umhverfisáhrifum, þegar Skipulagsstofnun hefur fylgt málinu eftir og þegar öll þau sveitarfélög sem að málinu koma og almenningur í þeim sveitarfélögum hefur komið að málinu og það hefur fengið lýðræðislega umfjöllun á öllum stigum þá þarf einfaldlega mjög sterk efnisleg rök fyrir því að taka allt ferlið upp aftur og ég sé ekki að þau séu komin fram. En umræðunni er auðvitað ekki lokið og það kann að vera, ég vil ekki útiloka það, að þau rök komi fram í dag en það eru þá alla vega miklar fréttir.