135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[18:14]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú gæti ég út af fyrir sig tekið undir með nefndum Páli Einarssyni og þá um leið raunar með hæstv. viðskiptaráðherra, Björgvini G. Sigurðssyni, þingmanni okkar í Samfylkingunni í Suðurkjördæmi, um að vera kunni að réttast væri að miða fyrst og fremst að því að hafa rennslisvirkjanir í neðri hluta Þjórsár en ekki þau lón sem þar eru fyrirhuguð ef menn ætla að nýta þann kraft.

Það væru farsælustu málalyktir í þessu en það væri þá á forsendum þess að endurskoða áformin en ekki að taka upp það hættumat sem verið er að vinna eða þau ferli sem áður hafa verið í gangi því að þar höfum við einfaldlega farið í gegnum alls kyns athugasemdaferli. Við höfum farið í gegnum skýrslugerð, við höfum farið í gegnum mat, við höfum farið í gegnum andmælarétti, við höfum farið í gegnum skipulagsferli í sveitarfélögum, við höfum farið í gegnum allt ferlið hjá Umhverfisstofnun og mér þykja það einfaldlega ekki vinnubrögð að ganga gegn öllum þeim ferlum sem við sjálf höfum sett sem hinar lýðræðislegu reglur í málinu til að láta eiganda Landsvirkjunar framkvæma óháð mat sem Landsvirkjun á sjálf ekki að vera fær um að framkvæma. Það er einfaldlega afstaða mín. En hún breytir því ekki að ég held að hitt væri miklu farsælla, sem þingmaðurinn nefnir, að láta sér nægja rennslisvirkjanir í neðri hluta Þjórsár heldur en þau áform sem núna eru uppi, m.a. í ljósi þeirra breyttu viðhorfa sem nú eru í samfélaginu til virkjunaráforma.