135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[18:23]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ekki veit ég hvað tefur útreikninga á arðseminni en ég veit að þegar ákvörðunin var tekin var álverð 1.400–1.500 dollarar á tonnið og er núna 3.100 dollarar á tonnið. Það veit ég þannig að þær forsendur hafa alla vega ekki brugðist og þá frekar farið í hina áttina því að álverðið er miklu, miklu hærra.

Verðið á virkjuninni reyndist verða eitthvað eilítið meira en áætlað var en þó innan skekkjumarka, þ.e. framkvæmdin öll, þannig að ég sé ekki annað en að þetta dæmi gangi bara ljómandi vel. Ef þetta hefði verið í einkaeigu og einhverjir fjárfestar hefðu fjármagnað þetta sjálfir þá þyrftum við ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu. Þá mundi það vera á ábyrgð fjárfestanna sjálfra og það hefði náttúrlega verið miklu betra. Þá þyrftu menn heldur ekki að vantreysta áhættumati sem er hluti af mati á umhverfisáhrifum, eins og hv. flutningsmenn gera. Þeir vantreysta í rauninni því áhættumati sem á að gera hvort sem er. Þeir vantreysta því að stjórn Landsvirkjunar — og hafa kannski einhverja reynslu af því að það sé ástæða til að vantreysta henni, ég veit það ekki — að hún gæti hagsmuna ríkisins sem eiganda þessarar virkjunar.

Ef um væri að ræða stjórn venjulegs hlutafélags og hún færi út í eitthvert áhættumat sem væri rangt mundi hún aldeilis þurfa að standa skil á því gagnvart hluthöfum.